132. löggjafarþing — 121. fundur,  3. júní 2006.

samningur milli Íslands, Danmerkur og Færeyja.

682. mál
[03:33]
Hlusta

Frsm. utanrmn. (Magnús Stefánsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég geri grein fyrir nefndaráliti frá utanríkismálanefnd á þskj. 1392 um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna samnings milli ríkisstjórnar Íslands annars vegar og ríkisstjórnar Danmerkur og heimastjórnar Færeyja hins vegar. Tengist þetta því máli sem ég gerði grein fyrir áðan, þingsályktunartillögu á þskj. 999.

Til að innleiða samninginn þarf að gera ýmsar breytingar á löggjöf og er frumvarp þetta lagt fram í því skyni. Breytingarnar sem lagðar eru til lúta að atriðum í löggjöf sem fjalla um vöruviðskipti, þjónustuviðskipti, fjárfestingar og rétt til stofnsetningar fyrirtækja hér á landi. Jafnframt eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á lögum til að standa undir skuldbindingum Íslands samkvæmt nýjum stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, Vaduz-samningnum svokallaða.

Við athugun nefndarinnar á málinu kom í ljós að smávægilegar lagfæringar þurfti að gera á frumvarpinu en þar er ekki um efnisbreytingu að ræða. Í fyrsta lagi er um lagfæringu á orðalagi að ræða en í öðru lagi er lagt til að 107. og 108. gr. frumvarpsins falli brott enda varða þær greinar breytingar á lagaákvæðum sem felld voru brott með lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á þingskjali 1393.

Að þessu nefndaráliti standa hv. þingmenn Halldór Blöndal, Drífa Hjartardóttir, Össur Skarphéðinsson, Jón Gunnarsson, Magnús Stefánsson og Bjarni Benediktsson.