132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:13]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að taka þetta mál hér upp undir liðnum Athugasemdir um störf þingsins og full ástæða til.

Það sem er að gerast með vaxtabæturnar og eignamörkin eða skerðingarmörkin varðandi þær er að mörgu leyti sama aðferð og ríkisstjórnin hefur beitt varðandi tekjuskatt. Jöfnunarmörkin sitja eftir. Fasteignaverð hefur verið að hækka mikið. Skerðingarmörkin eru föst áfram í krónutölu. Þetta er nákvæmlega það sama og gerðist með persónuafsláttinn hjá þessari ríkisstjórn. Hann sat eftir, hann fylgdi ekki verðlagi, hann fylgdi ekki launum og þar af leiðandi jókst hlutfallsleg skattbyrði á launafólk. Það sama er að gerast núna varðandi vaxtabæturnar.

Hvaða eign er það að sitja í húsi sem hækkað hefur á pappírunum og enginn ætlar að nýta það? Fólk heldur áfram að búa í sínu húsi og gerir það næstu árin. Hvaða eign er það fyrir fólk sem gerði plön og bjóst við að fá fullar vaxtabætur vegna þess að launin eru lág og skerðingarmörkin voru þau að fólk gerði ráð fyrir að geta fengið þær bætur að eingöngu við það að fasteignaverð hækkar á höfuðborgarsvæðinu í húsi sem það hafði ekki hugsað sér að selja og ætlar að vera í og eiga heima í næstu árin hverfa hundruð þúsunda króna af ráðstöfunartekjum þess?

Hæstv. fjármálaráðherra segir: Við skulum bíða, við skulum sjá. Við vitum ekkert hvað kemur út úr þessu. Kannski er þetta fólk búið að taka svo mikið af lánum í viðbót að nettóeign hefur ekkert hækkað. Er hæstv. ráðherra að segja að komi það í ljós að fjöldi einstaklinga verði fyrir skerðingu út af þessu verði málið tekið upp og greitt til baka? Er hæstv. ráðherra að segja það? Mér finnst full ástæða til að hann svari því.