132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

útreikningur vaxtabóta.

[09:15]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Frú forseti. Vegna beinna aðgerða ríkisstjórnarinnar, ákvæða sem breyta skattalögunum til skerðingar á vaxtabótunum, hafa íbúðarkaupendur sætt skerðingu á umliðnum tveimur árum og munu sæta skerðingu á þessu ári einnig. Til viðbótar kemur síðan skerðing vegna hækkunar á fasteignamati.

Ég vil leiðrétta það sem fram kom hjá hæstv. fjármálaráðherra. Þau dæmi sem ég tók eru af fólki sem ekki hefur aukið við skuldir sínar milli ára. Staða þeirra er óbreytt fyrir utan það að ég reikna með hækkun á launum í samræmi við vísitölu og hækkun á eignarskattsstofninum út af fasteignamatinu. Það er það eina sem hefur breyst hjá þessu fólki. Samt er fjöldi fólks að missa 200–300 þús. kr. í vaxtabætur sem það hefur reiknað með í fjárhagsáætlunum sínum.

Ég er sannfærð um að fjöldi fólks gerir sér enga grein fyrir því að það mun standa frammi fyrir því í ágúst að fá ekki eina einustu krónu í vaxtabætur. Hvað ætlar hæstv. fjármálaráðherra að gera? Hann segist ætla að skoða málin. Hæstv. ráðherra verður að tala skýrar. Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera í ágúst þegar reiðialdan skellur yfir þetta þjóðfélag, þegar fólk, þúsundum saman, fær álagningarseðla sem sýna að það fær ekkert í vaxtabætur þótt staða þess sé óbreytt frá síðasta ári þegar það fékk kannski 200–250 þús. kr. í vaxtabætur?

Ætlar hæstv. ráðherra, þegar hann stendur frammi fyrir því, að endurgreiða fólki? Ætlar hann að leggja til við þingið í októbermánuði að því verði endurgreitt með einhverjum hætti? Væri ekki nær að taka á málinu núna?

Það er rétt að fyrir þinginu liggur tillaga frá Atla Gíslasyni sem verður rædd í dag. Ég skora á hæstv. ráðherra að taka á þessu máli. Ég skora á hv. efnahags- og viðskiptanefnd að koma saman, ræða þá tillögu og hvernig hægt verði að taka á þessu máli (Forseti hringir.) og breyta frumvarpinu sem liggur fyrir þinginu, t.d. með ákvæðum til bráðabirgða til að bregðast við því (Forseti hringir.) risavaxna vandamáli sem heimilin standa frammi fyrir.