132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

tekjuskattur.

793. mál
[10:25]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við þetta frumvarp, sem lýtur að því að heimila fyrirtækjum að dreifa bókfærðum gengishagnaði, er fram komin breytingartillaga frá okkur þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs undir forustu hv. þm. Atla Gíslasonar um að leiðrétta í leiðinni þá skerðingu vaxtabóta sem að óbreyttu verður vegna verðbólgu og hækkunar fasteignaverðs á síðustu mánuðum. Það er mikilvægt að árétta að allt liggur nú fyrir sem varðar útreikning vaxtabóta við álagningu ársins 2006, þ.e. vegna tekna og vaxtakostnaðar og eigna á árinu 2005. Það liggur allt fyrir, frú forseti, er frágengið, er komið inn í framtöl manna og er til skoðunar hjá skattstjórum landsins. Það er mjög mikilvægt að æðsti yfirmaður skattamála í landinu, hæstv. fjármálaráðherra, átti sig einnig á því að þannig er skattaframkvæmdin á Íslandi.

Með öðrum orðum eru allar breyturnar sem ráða vaxtabótunum sem koma til greiðslu í ágústmánuði fastar, komnar. Mönnum er þar af leiðandi ekkert að vanbúnaði að gera þær breytingar sem þarf að gera til að koma í veg fyrir það sem að óbreyttu verður, að þúsundir lágtekjufjölskyldna í landinu verða alfarið af þessum bótum eða þær skerðast verulega frá því sem var á fyrra ári. Um það hafa verið reidd fram raundæmi úr framtölum frá því á útmánuðum þessa árs.

Þetta eru borðleggjandi staðreyndir málsins og það þýðir ekki að drepa því á dreif með því að blanda inn í umræðuna alls óskyldum hlutum sem engin áhrif koma til með að hafa á það hvort fólkið fær vaxtabætur eða ekki á sumri komandi, eins og t.d. breytt fyrirkomulag íbúðalána í framtíðinni. Ég reikna ekki með að það hafi áhrif á þegar orðin vaxtagjöld manna á síðasta ári.

Það er algjörlega nauðsynlegt og lágmark að ríkisstjórnin svari hér og nú: Verður eitthvað gert í þessum efnum til að endurreisa vaxtabótakerfið og þá hvenær og hvernig verður það gert? Er hægt að gera það afturvirkt ef tækifærið verður ekki notað núna? Hvernig verða þau vinnubrögð ef álagningin kemur til framkvæmda að óbreyttum lögum?

Ég fer fram á að hæstv. fjármálaráðherra svari einhverju um það. Er búið að skoða það tæknilega hvort slíkt sé hægt. Það væri að mínum dómi miður, frú forseti, ef menn felldu þá beinu tillögu sem hér er um eðlilegustu og nærtækustu lagfæringuna á þessu máli sem er einfaldlega að lyfta skerðingarmörkunum í samræmi við þær staðreyndir sem við höfum fyrir framan okkur um hækkun fasteignaverðs og verðbólgu. Ég nefni því þessa breytingartillögu aftur núna við 2. umr. til að gefa hæstv. ríkisstjórn ráðrúm til að skoða þetta og svara þá hér við 3. umr. hvort einhverjar lagfæringar standi til, en hlýt að endurvekja hana og flytja ef ekki stendur til að gera neitt af hálfu ríkisstjórnarinnar.