132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[10:32]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er að koma til atkvæðagreiðslu frumvarp til laga um breytingar á lögum um olíugjald, kílómetragjald o.fl., þar sem m.a. er verið að leggja til að sérstakri skattlagningu á olíu verði haldið áfram með bráðabirgðaákvæðum.

Það óskar sér enginn hás orkuverðs sem slíks, en engu að síður snýst pólitíkin um skattlagningu á orku á vissan hátt um orkustefnu. Þess vegna eru möguleikar í gegnum skattlagninguna til að hafa þar áhrif og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggjum þar áherslu á bæði orkusparnað og sjálfbæra orkustefnu, ekki síst í samgöngum, þannig að skattlagning á óendurnýjanlegum orkugjöfum er þá einn liður í að stýra notkuninni og þróuninni í þeim efnum.

Við höfum m.a. lagt til að teknar verði upp strandsiglingar að nýju til að spara orku og til að auka hagkvæmni í flutningum. Við höfum líka lagt til að staðið verði enn betur bak við almenningssamgöngur í landinu. Við höfum líka lagt til að ráðist verði í sérstakt átak til að rannsaka og þróa vistvæna orkugjafa til að nýta í samgöngum. Þess vegna leggjum við til breytingartillögu við 4. gr., eða viðaukatillögu við 4. gr. þessara laga þar sem gert er ráð fyrir að viðhaldið sé 41 kr. á hvern lítra af olíu frá gildistöku þessara laga til 31. desember 2006. Í breytingartillögu okkar er lagt til, frú forseti, að við bætist ný grein sem verði 4. gr. og orðist svo:

„Innheimtar tekjur af olíugjaldi, kílómetragjaldi og sérstöku kílómetragjaldi samkvæmt lögum þessum renna til Vegagerðarinnar að frádregnum 0,5% sem renna í ríkissjóð til að standa straum af kostnaði við framkvæmd laga þessara og 4,5% sem renna til að efla almenningssamgöngur og til að auka hlut vistvænna orkugjafa í samgöngum.“

Miðað við gjaldheimtu síðasta árs gæti þetta numið um 200 millj. kr., sem sérstaklega væri varið af þessum tekjustofni til þeirra verkefna sem ég hér hef nefnt. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt inn í þá umræðu sem hæstv. fjármálaráðherra kom inn á fyrr í vor til að taka á orkumálunum heildstætt og þetta er einn liður í því.