132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

olíugjald og kílómetragjald o.fl.

794. mál
[10:37]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég skýrði afstöðu mína áðan en ég fagna því að stjórnarmeirihlutinn er aðeins farinn að sjá að sér í þessum málum. Ég tel að það eigi að ganga skrefið til fulls eins og ég boðaði áðan. Sem rökstuðning fyrir því máli, um skattheimtuna sem kemur inn af þessu gjaldi, þá erum við í efnahags- og viðskiptanefnd með bréf frá fjármálaráðuneytinu sem sýnir fram á að tekjur af olíugjaldi af árinu eru ætlaðar 1,5 milljörðum kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Þarf frekar vitnanna við, virðulegi forseti, um þá ískyggilegu og stórhættulegu skattheimtu sem er af umferðinni í landinu? Hér eru þessar tekjur sem við erum að tala um en á móti ætlar stjórnarmeirihlutinn sér að setja þetta tvöfalda kerfi á björgunarsveitarbíla landsins. Ég lýsi því yfir að ég styð það ef það er til sátta, að 2. gr. falli út og björgunarsveitarbílarnir fái að keyra á litaðri olíu og engin frekari skattheimta af þeim þar.