132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

skráning losunar gróðurhúsalofttegunda.

713. mál
[10:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Við samfylkingarmenn styðjum þetta mál en ég get ekki orða bundist við afgreiðslu þess. Markmiðið er ágætt, þ.e. að skapa skilyrði fyrir stjórnvöld til þess að standa við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda, en íslensk stjórnvöld hafa ekkert gert til þess að ná tökum á stóriðjunni í landinu. Þau ráða ekki hvort álverin rísa, ekki hvenær þau rísa og ekki hvar þau rísa. Við sjáum að menn eru komnir á fulla ferð að stækka álverið í Straumsvík, í Helguvík, nýtt á Húsavík. Íslensk stjórnvöld hafa ekkert gert og á þessu sumri geta menn ráðið þessu til lykta án þess að íslensk stjórnvöld fái rönd við reist. Þau sitja uppi með að þurfa að skaffa þeim aðilum sem þarna er um að ræða þær lofttegundir eða útblástursheimildir sem á þarf að halda vegna þessara álvera. (Forseti hringir.) Þetta er auðvitað algjörlega óviðunandi og íslenskum stjórnvöldum til skammar.