132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

Matvælarannsóknir hf.

387. mál
[11:12]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér á að leggja niður Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Matvælarannsóknir Keldnaholti og rannsóknastofu Umhverfisstofnunar og sameina í Matvælarannsóknum hf. Þessi stofnun kemur til með að sinna lögboðnu öryggishlutverki. Hún kemur til með að vera á forræði ríkisins þótt hún geti gert samninga við aðra aðila.

En eitt er frábrugðið hjá hlutafélaginu sem verið er að stofna og þeim stofnunum sem nú sinna samsvarandi hlutverki. Það sem er frábrugðið er að búið verður að svipta starfsfólkið mikilvægum og umsömdum réttindum. Það er frábrugðið. Það er einnig frábrugðið að þessi starfsemi verður tekin undan stjórnsýslu- og upplýsingalögum. Á þeim forsendum greiðir Vinstri hreyfingin – grænt framboð atkvæði gegn þessu frumvarpi.

Frumvarpið hefur verið gagnrýnt af fjölmörgum aðilum í þjóðfélaginu, ekki bara starfsfólki og samtökum þeirra heldur einnig samkeppnisaðilum á markaði sem telja að með þessu fyrirkomulagi sé stigið varasamt skref. Við andmælum þessu frumvarpi og greiðum atkvæði gegn því, öllum greinum þess.