132. löggjafarþing — 122. fundur,  3. júní 2006.

stefnumótandi byggðaáætlun 2006--2009.

391. mál
[12:37]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér stefnuna í byggðamálum og það verður að segjast eins og er að það var þó vonum framar að menn skyldu ná saman um þessar áherslur í byggðamálunum í lokin og lagfæringu á byggðaáætluninni. Það hefði auðvitað varla gerst ef keyra hefði átt fram frumvarpið um Nýsköpunarmiðstöð, enda er sú stefnumótun í raun og veru algjörlega andstæð því að reyna að efla byggð í landinu, að tryggja að jafnræði ríki með þegnum landsins og að jafnframt sé verið að efla landsbyggðina til jafns við það sem annars staðar gerist.

Byggðastefnan er í rauninni viljayfirlýsing um góð áform en það er óvíst um efndirnar eins og við höfum séð á undanförnum árum. Reynslan sýnir glöggt að það er fyrst og fremst Stór-Reykjavíkursvæðið sem stöðugt vinnur á en landsbyggðin hefur í mörgum tilfellum setið eftir. Við á landsbyggðinni erum enn að fást við það að vegakerfið er ekki með þeim hætti sem æskilegt væri. Við keyrum enn á malarvegum á sumum landsvæðum og við keyrum líka á vegum sem beinlínis teljast hættulegir vetur, sumar, vor og haust vegna skriðufalla og snjóflóða. Ekki hefur verið tekin í forgang formleg stefna um þá þróun sem verið hefur í vegagerð hvað varðar jarðgöng til þess að láta fara saman annars vegar styttingu vegalengda og hins vegar öruggari akstursleiðir. Það er mál sem við höfum tekið sérstaklega fyrir í Frjálslynda flokknum og höfum lagt fram tillögu um það í þinginu að sett verði í forgang að gera þau jarðgöng sem þarf að gera hér á landi á næstu 20 árum til þess að stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi.

Þess vegna fagna ég því að tekið sé inn í byggðaáætlunina að huga skuli sérstaklega að samgöngumálum og að Byggðastofnun skuli koma að því með Vegagerðinni að leggja mat á verkefni í samgöngumálum sem miði að eflingu byggða og atvinnulífs í landinu. Þetta tel ég mjög mikilvægt fyrir stöðu byggðanna eins og þær eru og einn mesti áfanginn, sérstaklega fyrir þau svæði landsins sem lakast eru sett hvað varðar vegakerfið og samgöngubætur yfir í nútímahorf.

Ég fagna því einnig að lögð skuli vera áhersla á menntun á landsbyggðinni en tek að mörgu leyti undir það sem kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar varðandi stefnuna í háskólamenntun hér á landi. Ég tel að menn þurfi virkilega að halda vöku sinni þar svo sú stefnumótun sem tekin var með háskólasetrum verði í raun til þess að við sjáum innan skamms tíma háskóla m.a. á Vestfjörðum og víðar á landsbyggðinni. Það fer ekki á milli mála að menntunin er mikið landsbyggðarmál fyrir utan það að vera mikið atvinnumál og mikið aðdráttarafl til að halda ungu fólki í heimabyggð sinni og að það starfi þar síðan að námi loknu. Þetta skiptir allt verulegu máli.

Ég fagna því einnig að tekið hafi verið inn í orðalag ályktunarinnar að taka skuli mið af þeim byggðum sem orðið hafa fyrir sérstökum skakkaföllum vegna sjávarútvegsstefnunnar, vegna tilflutnings á aflakvótum úr byggðarlögum sem hefur jú unnið mjög gegn því að byggðir héldu velli og gætu byggt ofan á þá undirstöðu sem þær hafa haft vegna þess óöryggis sem fylgt hefur núverandi kvótakerfi og því frjálsa framsali sem þar hefur verið. Það er virkilega ánægjulegt að það sé nú tekið inn í byggðaáætlun að það skuli haft til sérstakrar skoðunar og að Byggðastofnun komi sérstaklega að því að skoða þá stöðu sem upp kemur í byggðarlögum sem hafa farið halloka vegna þess að veiðiheimildir hafi horfið snögglega eða hafa glímt við algjöran atvinnumissi í sumum sjávarútvegsgreinum eins og rækjuiðnaðinum og hörpuskelsiðnaðinum.

Það er mjög mikilvægt að nú skuli sett sú stefnumótun að Byggðastofnun fái aukið fjármagn. Það verður auðvitað horft til þess þegar fjárlög verða mótuð og afgreidd á næsta hausti að það fylgi eftir til þess að Byggðastofnun eflist og þar með verði staðið við það í raun að hún fái á ný aukið vægi og öflugt hlutverk í því að efla byggðirnar í landinu með því að merkja fjármagn á fjárlögum til þeirra verkefna sem sinna þarf á sviði byggðamála. Byggðamálaáætlun sem hvorki fær fjármagn né skýr markmið til þess að vinna með verður aldrei neitt. Það hefur vissulega borið á því á undanförnum árum að byggðamálin hafi ekki fengið þann virka stuðning sem þau hefðu þurft til þess að snúa þróuninni við. Það er alveg ljóst að það er fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu sem t.d. opinber störf verða til og festast í sessi en landsbyggðin situr eftir og fer mjög halloka í því að fá til sín störf. Þessari þróun þarf að snúa við þannig að landsbyggðin fái í auknum mæli til sín störf í stjórnsýsluverkefnum og annarri umsýslu ríkisins.

Að lokum vil ég segja það að sú stefna að sveitarfélögin taki til sín aukin verkefni og hafi meira hlutverki að gegna er stefna um að auka lýðræði og valfrelsi í landinu þar sem íbúarnir hafa meira að segja um framtíð sína. Ég fagna því að það skuli sett hér inn í ályktunina undir liðnum Efling sveitarstjórnarstigsins þannig að sveitarfélögin í landinu verði hvort tveggja í senn betur í stakk búin til að sinna verkefnum og tilbúin til að taka við verkefnum frá ríkinu. Þetta þýðir auðvitað að finna þarf sveitarfélögunum nýja tekjustofna. Það er borin von að hægt sé að færa verkefni til sveitarfélaga öðruvísi en að tryggja þeim nýja tekjustofna. Í því sambandi vil ég minna á að fasteignagjöldin eins og þau eru, og þau eru mikill tekjustofn fyrir sveitarfélögin, keyra iðulega þvert á greiðslugetu fólks. Þegar fasteignagjöld hækka um 30–50% milli ára vegna breytinga á fasteignaverði en kaupgjaldið hækkar kannski um 4,5% hjá láglaunafólkinu, ég tala nú ekki um eldri borgara og öryrkja, þá sjá allir hvert stefnir í því. Þó að sveitarfélögin hafi vissulega tekið upp afslætti fyrir eldri borgara og öryrkja og jafnvel afslætti frá þeirri hækkun sem ella hefði orðið þarf að taka á þessu máli. Við höfum lagt það sérstaklega til í Frjálslynda flokknum að fasteignagjöld geti ekki hækkað meira á milli ára en sem nemur meðalkaupbreytingum fólks þannig að það keyri ekki alveg í sitt hvora áttina, annars vegar álögur í fasteignagjöldum og hins vegar þróun í kaupgjaldi fólks eða þeim bótum sem fólk þarf að lifa af.

Síðan er skattastefnan í landinu eins og hún er, því miður. Hún eykur á misskiptingu og það er alveg sjáanlegt að víða hefur orðið tekjusamdráttur í landshlutunum. Ég minni á Vestfirði sem fyrir nokkrum árum voru 10–12% yfir landsmeðaltali ár eftir ár en eru nú verulega undir landsmeðaltali. Að öllu þessu samanlögðu tek ég undir þau orð hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að byggðastefnan er fyrst og fremst viljayfirlýsing og það er óvíst um efndir. Huga ber sérstaklega að því að það sem hér hefur verið sett á blað þarf að efna með fjárveitingum og virkri stefnumótun. Ekki er hægt að koma inn með frumvörp til að fá þau samþykkt ef þau ganga þvert á yfirlýsta stefnu Alþingis í byggðamálum. Það segir auðvitað þá sögu að þá meina menn ekkert með því sem hér er verið að setja á blað eina ferðina enn ef þannig á að vinna. Þess vegna fagna ég því að málið skuli þó fara í þann farveg sem við sjáum hér og að ekki sé vegið að byggðastefnunni eins og mér hefur fundist vera gert í stefnumótun varðandi Nýsköpunarsjóð og Byggðastofnun.