132. löggjafarþing — 123. fundur,  3. júní 2006.

almennar stjórnmálaumræður.

[14:41]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Stjórnmál snúast um fólk. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn í samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn síðastliðin 11 ár unnið að alhliða umbótum í íslensku samfélagi. Þessi uppbygging hefur skilað miklum árangri sem hvarvetna sést og hver tekur eftir ef hann vill leggja svo lítið við.

Stjórnmál snúast um fólk. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn unnið ötullega að málefnum fjölskyldunnar síðastliðin 11 ár. Þess vegna hafa barnabætur hækkað. Húsnæðisbætur hafa hækkað. Skattar hafa lækkað og kaupmáttur fólks aukist. Þess vegna hefur einstaklingum líka verið auðveldað að eignast þak yfir höfuðið með 90% húsnæðislánum Íbúðalánasjóðs. Það var hugmynd sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hlógu að fyrir síðustu kosningar en rembast nú eins og rjúpan við staurinn að lofa og prísa.

Stjórnmál snúast um fólk. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn lagt áherslu á velferð aldraðra og öryrkja, t.d. með hækkun örorkubóta sem við þurftum að berja í gegnum þingið í andstöðu við stjórnarandstöðuflokkana og sömuleiðis með aldurstengingu örorkubóta. Framsóknarflokkurinn hefur staðið vörð um velferðarkerfi okkar Íslendinga í mörg undanfarin ár og Framsóknarflokkurinn mun áfram standa vörð um velferðarkerfið.

Stjórnmál snúast um fólk. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn og ríkisstjórnin lagt áherslu á að byggja upp menntun og byggja upp menntastofnanir um land allt. Framboð og fjölbreytni á öllum skólastigum hefur aukist og menntunarstig þjóðarinnar er alltaf að hækka. Þess vegna hefur ríkisstjórnin líka hækkað námslán, minnkað tekjuviðmið og lækkað endurgreiðslubyrði námslána. Allt er þetta gert til að jafna og auka möguleika fólks á að stunda nám. Aukin menntun skilar sér í auknum þjóðartekjum og ef guð lofar mun stjórnarandstaðan átta sig á því áður en þessi öld verður öll.

Stjórnmál snúast um fólk. Stjórnmál snúast líka um traust og ábyrgð. Þess vegna þorir Framsóknarflokkurinn að taka afstöðu og ábyrgð á meðan stjórnarandstöðuflokkarnir gera ekki neitt og þá sérstaklega Samfylkingin sem aldrei tekur afstöðu til nokkurs er skiptir máli. Öll umbyltingin sem átti að verða með nýjum formanni Samfylkingarinnar hefur engin orðið. Hugmyndaauðgin er engin og hin meinta framtíðarsýn hefur koðnað niður með ótrúlega miklum hraða. Þessi framtíðarsýn birtist núna í einni nöldrandi konu sem hefur engar hugmyndir og enga sýn eins og fram kom í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur hér áðan.

Ég ætla ekki að leggja það á þessa þjóð að rifja upp ræðu hv. þm. Marðar Árnasonar hér áðan. Hver er nú í sauðargærunni sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um áðan? Það er auðvitað stjórnarandstaðan og stjórnarandstaðan er enginn úlfur í sauðargæru. Stjórnarandstaðan er sauður í sauðargæru, villuráfandi hjörð, sundruð hjörð sem veit ekki hvort hún er að koma eða fara út úr þinghúsinu. Jafnsorglegt og það er er þetta nú samt svona. Hver skyldi svo vinstri sveiflan vera sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um áðan? Jú, fylgi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs jókst úr 10% í 12. Það voru öll ósköpin. (Gripið fram í: Meira en Framsóknarflokkurinn fékk.)

Stjórnmál snúast um fólk. (Gripið fram í: Hvaða fólk?) Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn verið kjölfestan í íslenskum stjórnmálum í 90 ár. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn þorað þegar aðrir sitja með hendur í skauti. Þess vegna hefur Framsóknarflokkurinn tekið af skarið þegar aðrir hafa látið hugfallast. Þess vegna, hæstv. forseti, mun Framsóknarflokkurinn verða kjölfestan í íslenskum stjórnmálum á 21. öldinni.

Hæstv. forseti. Stjórnmál snúast um fólk.