132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

almenn hegningarlög o.fl.

619. mál
[15:18]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir breytingartillögu á þskj. 1475. Hún kemur inn á barnaklámsákvæði samningsins sem hér er verið að innleiða. Samningurinn hefur að geyma nokkuð víðtæka skilgreiningu á því hvað er barnaklám. Ástæðurnar eru skýrar. Það er gert til þess að tryggja að börn njóti viðunandi verndar og sem víðtækastrar verndar gegn kynferðislegri misnotkun þeirra sem framleiða og selja barnaklám og hinna sem nýta sér það.

Í þessum samningi er af óskiljanlegum ástæðum undanþáguákvæði sem heimilar aðildarríkjum að fara vægar í sakirnar í þessum efnum og nota þrengri skilgreiningu. Með öðrum orðum að takmarka skilgreininguna á barnaklámi við það að barn eða ungmenni undir 18 ára aldri komi fyrir í myndefni því sem um ræðir.

Þessa undanþágu hyggjast íslensk stjórnvöld nýta sér. Því miður tókst ekki að ná um það samstöðu í allsherjarnefndinni að breyta frumvarpinu.

Breytingartillaga mín gengur út á að menn viðurkenni alvarleika þess að ýta undir kynferðislegar hneigðir til barna hvaða meðulum sem menn beita til þess. Alþingi Íslendinga hlýtur að þurfa að leggja að jöfnu allt klám sem ýtir undir að börn séu notuð kynferðislega. Okkur ber skylda til þess. Þess vegna treysti ég því að tillaga sú sem hér er flutt verði samþykkt.