132. löggjafarþing — 124. fundur,  3. júní 2006.

aðgangur að opinberum gögnum um öryggismál.

803. mál
[15:52]
Hlusta

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá allsherjarnefnd um tillögu til þingsályktunar um aðgang að opinberum gögnum um öryggismál.

Ég leyfi mér að vísa í nefndarálit nefndarinnar sem liggur frammi á þskj. 1467. Allsherjarnefnd telur rétt að forseti Alþingis og formenn þingflokka eigi þess kost að fylgjast með framgangi starfs nefndarinnar. Nefndin leggur til breytingar á tillögunni í þá veru. Óþarft er að mati nefndarinnar að tekið sé fram í tillögugreininni að samráð skuli haft við Stjórnarráðið eða einstök ráðuneyti. Engu að síður er ljóst að ráðuneytin þurfa að leggja nefndinni lið við gagnaöflun. Lagt er til grundvallar að nefndin byggi niðurstöður sínar um aðgang á mikilvægi gagnanna fyrir fræðilegar rannsóknir og að sjálfsögðu á gildandi lögum.

Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með þeirri breytingu sem birt er á þskj. 1467. Ég læt hjá líða að lesa tillögugreinina upp í heild sinni.