133. löggjafarþing — þingsetningarfundur

kosning forseta.

[14:24]
Hlusta

Aldursforseti (Jóhanna Sigurðardóttir):

Nú fer fram kosning forseta Alþingis. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. þingskapa eru þeir einir í kjöri sem tilnefndir eru. Mér hefur borist ein tilnefning, um 5. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, Sólveigu Pétursdóttur. Eru aðrar tilnefningar?

Aðrar tilnefningar hafa ekki borist. Sólveig Pétursdóttir er því ein í kjöri.

Þar sem aðeins einn er í kjöri fer kosningin fram með atkvæðagreiðslukerfinu eins og á undangengnum þingum ef ekki eru athugasemdir. Kosningin er leynileg. Töflurnar á veggjum munu aðeins sýna hverjir hafa greitt atkvæði en ekki hvernig þeir greiddu atkvæði og sama gildir um geymsluminni tölvunnar. Þeir sem kjósa Sólveigu Pétursdóttur ýti á já-hnappinn en þeir sem skila auðu ýti á hnappinn sem merktur er: Greiðir ekki atkvæði. Gult ljós kviknar við miðhnappinn þegar atkvæði hefur verið greitt, sama á hvorn hnappinn er ýtt, og eins kviknar aðeins gult ljós á veggtöflunni því að kosningin er leynileg eins og áður sagði. Hefst nú kosning forseta.

 

[Gengið var til forsetakosningar. Atkvæði féllu þannig að Sólveig Pétursdóttir, 5. þm. Reykv. s., hlaut 55 atkvæði, 7 þingmenn greiddu ekki atkvæði.]