133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:01]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Atvinnulíf og auðlegð þjóðarinnar byggist á að nýta gæði landsins og hafsins. Við Íslendingar búum í þekkingarsamfélagi sem tekst sífellt betur að nýta auðlindir sínar með sjálfbærum hætti. Það á við um fiskstofnana, orkuauðlindirnar og nýtingu landsins til landbúnaðar og ferðaþjónustu.

Undir traustri forustu Sjálfstæðisflokksins hefur þekkingarsamfélagið vaxið með öflugri uppbyggingu háskóla og rannsóknastofnana. Þekkingarsetur á landsbyggðinni, þar sem fólk getur stundað háskólanám og rannsóknir, sem byggjast á sérstöðu hvers landsvæðis hafa vaxið og dafnað. Háskólinn á Akureyri hefur vissulega verið brautryðjandi á þessu sviði og hefur sýnt svo ekki verður um villst hversu öflugt tæki hann er til að treysta byggð í landinu.

Nýting orkuauðlinda hlýtur að verða á dagskrá um langa framtíð enda ein helsta forsenda uppbyggingar í landinu. Nú er að ljúka virkjun Jöklu með framkvæmdum við Kárahnjúka, virkjun sem ber vitni um hve öfluga og vel menntaða vísindamenn við eigum. Þeir geta hannað og byggt slíkt mannvirki. Það er afrek. Vissulega eru framkvæmdirnar umdeildar. Hins vegar virðist mér sem í umræðu undanfarinna daga sé vísvitandi varpað skugga á aðalatriði stóriðjuuppbyggingar á Austurlandi, sem er að styrkja atvinnu og mannlíf á svæðinu. Nú þegar er komið á daginn að hátæknistörf í álverinu á Reyðarfirði laða til sín vel menntað fólk. Það er ánægjulegt að verða vitni að því að ungt fólk sem áður sá ekki fram á að fá atvinnu við sitt hæfi á heimaslóðum að loknu háskólanámi er farið að snúa til baka. Mér segir svo hugur að við eigum eftir að sjá mörg dæmi um það á komandi árum að framkvæmdirnar hafi snúið vörn í sókn á Austurlandi og áhrifanna muni gæta víðar á landsbyggðinni. Fyrst og síðast hlýtur það að vera markmið okkar stjórnmálamanna að tryggja íbúum landsins sem fjölbreyttasta atvinnu og búsetumöguleika og stuðla að bæði öflugu höfuðborgarsvæði og kraftmikilli landsbyggð. Uppbygging á Austurlandi er liður í þeirri þróun.

Hæstv. forseti. Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hefur verið lögð áhersla á að nýta auðlindir landsins til atvinnuuppbyggingar. Sú stefna skilar sér í viðspyrnu í atvinnumálum fyrir landsbyggðina. Sem betur fer búa Íslendingar yfir mikilli þekkingu á nýtingu jarðhita og eru farnir að flytja þá þekkingu út. Við byggjum á þeirri þekkingu við nýtingu jarðhita á Hellisheiði og á Suðurnesjum og munum nýta hana til að virkja jarðhitasvæði á Kröflusvæðinu og Þeistareykjum. Mikil tækifæri felast í því til atvinnuuppbyggingar á Norðurlandi. Djúpborunarverkefni sem ráðist hefur verið í og kostar hundruð milljóna króna gefur okkur vonir um að minni landsvæði fari undir til að nýta megi jarðhitann. Ef verkefnið tekst vel er um að ræða margföldun á orkuöflunarmöguleikum okkar.

Sjálfbær auðlindanýting er einn af hornsteinum atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni. Kyrrstaða í þeim efnum væri boðun um undanhald atvinnulífs. Þrátt fyrir að okkur þyki vænt um hvern einasta fermetra lands á Íslandi og þyki sárt að nýta þá til orkuöflunar er það nú einu sinni svo að við ætlum að lifa í landinu og af því. Við erum sífellt að nýta land með einum eða öðrum hætti. Ferðaþjónusta hvers konar er dæmi um það. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er annað form landnýtingar. Þjóðgarðurinn felur í sér umhverfisvernd og náttúruvernd á gríðarlega stóru landsvæði en einnig mikil tækifæri í ferðaþjónustu. Til að þau tækifæri verði fullnýtt er grundvallaratriði að heimamenn á hverju svæði hafi fulla stjórn á rekstri og nýtingu þjóðgarðsins til atvinnuuppbyggingar.

Ekki verður skilið við umræðu um landnýtingu og auðlindir án þess að nefna hefðbundinn landbúnað sem er einn af þeim hornsteinum sem íslenskt samfélag byggist á. Það er stolt hverrar sjálfstæðrar þjóðar og í raun öryggisatriði að hún geti brauðfætt sig. Í umræðunni sem átt hefur sér stað að undanförnu um matvælaverð hefur ómaklega verið vegið að bændum og úrvinnslugreinum landbúnaðarins. (MÁ: Ekki af okkur.) Eitt af verkefnum okkar í vetur er að lækka matarverð eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi. Á næstu dögum munu birtast tillögur um hvernig það verður gert. Samfylkingin hefur kynnt sínar hugmyndir sem miða að því að ganga á milli bols og höfuðs á bændum og þeim sem hafa atvinnu af því að vinna úr landbúnaðarafurðum. Allir sjá hversu ómerkilegur slíkur tillöguflutningur er og ekki til annars gerður en að ná í augnabliks pólitískan ágóða. Landsmenn sjá í gegnum slíkt.

Það er viðurkennt og kemur fram í skýrslu hagstofustjóra að víða má taka til í tolla- og vörugjaldafrumskógum sem fengið hafa að vaxa á ýmsum forsendum um áratuga skeið. (BjörgvS: Þeir lækka …) Nú er lag að leggja til atlögu við þennan frumskóg með það að markmiði að vöruverð lækki (ÖS: Það er stefna okkar.) en samt með fullu samráði við bændur. Ólíkt Samfylkingunni mun ríkisstjórnin fara fram með raunhæfar lausnir til lækkunar vöruverðs og eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra þegar hann kynnti fjárlagafrumvarpið í gær er borð fyrir báru.

Góðir landsmenn. Íslendingar hafa lifað af í þessu harðbýla landi í rúm ellefu hundruð ár og hafa lært að nýta þekkingu, tækni og vísindi til að breyta því í allt að því paradís. Við státum af velferðarkerfi sem margir öfunda okkur af, mannauði og verkþekkingu sem við eigum að nýta á sem fjölþættastan hátt. Við lifum á uppbyggingarskeiði með tækifærin allt í kringum okkur og gæfa okkar felst í að stjórnvöld hafi kjark til að nýta þau. — Góðar stundir.