133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:25]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Gott kvöld. Góðir landsmenn. Nú höfum við hlýtt á stefnuræðu forsætisráðherrans okkar og ég verð að segja að mér finnst þessi ræða með dauflegra móti. Þetta er ein daufasta ræða sem ég hef hlýtt á síðan ég fór að fylgjast með stjórnmálum. Það lá við, kæru landsmenn, að ég væri farinn að sakna forvera hans í starfi, svo ósköp dauf var þessi ræða. Ræðan var svona álíka og útdráttur úr Morgunblaðinu og Staksteinum þar sem staðreyndum var viðstöðulaust snúið á haus, svo sem að við búum hér við meiri sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Það er bara alls ekki svo. Ég held að forsætisráðherra ætti að fara norður í Grímsey og spyrja Grímseyinga hvort þeir séu sáttir við það í dag að helmingur kvótans hafi verið seldur burt úr byggðarlaginu. Ég efast um að svo sé.

Ég vil segja við Arnbjörgu Sveinsdóttir, formann þingflokks Sjálfstæðisflokksins: Þetta á ekkert skylt við einhvern afrakstur af þekkingarsamfélaginu, langt í frá. Þetta er hrein og klár vitleysa þar sem verið er að flytja fiskveiðiheimildir norður af landi og suður á land. Þetta er hrein og klár vitleysa og er andstætt allri þekkingu. Ég efast um að leiguliðar séu sáttir við að þurfa að borga 75% af því sem þeir vinna sér inn fyrir leigu af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar, hvað þá þeir sjómenn sem eru á smábátunum og hafa ekki einu sinni kjarasamninga. Ég vil því biðja ágætan forsætisráðherra, áður en hann heldur næstu ræðu, að snúa ekki öllum staðreyndum á haus, það er lágmarkskurteisi. En þetta lýsir kannski veruleikafirringu ráðherrans.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvar eru hugsjónirnar sem hann boðaði, „báknið burt“? Ég get ekki séð annað í því fjárlagafrumvarpi sem borið er á borð hér í þingsölum en að það boði aukin ríkisútgjöld. Ríkisútgjöld hafa aukist um á annað hundrað milljarða síðan þessi ríkisstjórn tók við völdum. Það gerist nú sjaldan að niðurskurðarhnífnum sé beitt en þar sem honum er brugðið þá er það þar sem síst skyldi. Fréttir berast af því að honum hafi verið brugðið á ófaglærða starfsmenn á heilbrigðisstofnunum og dvalarheimilum sem lofað var 4% launahækkun en ríkisstjórnin, með Árna Mathiesen í fararbroddi, sá að þarna var ofaukið og tók 1% af þessu fólki sem hefur rétt rúmar 100 þús. kr. á mánuði. Þetta var of mikið, 4%, þannig að hann tók 1% af þessu fólki. Er hægt að leggjast lægra? Ég get ekki séð að það sé hægt.

Loks er annar þáttur sem ríkisstjórnin sker reglulega niður og það er til vegamála. Á milli þess sem hún sker niður koma yfirlýsingar um að það eigi að stórauka fjármagn til málaflokksins. Staðreyndin er sú að árið 1999 vörðu Íslendingar hlutfallslega meira en tvisvar sinnum hærri upphæð til vegamála en í utanríkisþjónustuna. Nú hefur dæmið hins vegar snúist við og mun meiri fjármunum er varið til utanríkisþjónustunnar en til vegamála. Þetta eru staðreyndir. Á sama tíma hefur ekki orðið sparnaður í ríkisstjórninni. Ráðherrum hefur fjölgað úr tíu í tólf og þeir streyma í stríðum straumum inn í ríkisstjórnina og út aftur. Ekki er það vegna þess að ríkisstjórnin beri hag almennings fyrir brjósti. Nei, verið er að reyna að lækna Framsóknarflokkinn, það er verið að reyna að blása lífi í flokkinn. Það var meira að segja sótt blóð í Seðlabankann, það lá reyndar við að það yrði sótt beint í S-hópinn en það brást. Síðan þegar maður ætlar að fá upplýsingar um hvað þetta allt kostar koma engin svör frá forsætisráðuneytinu þó svo að fjárframlög til ráðuneytisins séu stóraukin. Þetta er svo mikið leyndarmál og menn reyna greinilega fyrir alla muni að fela þetta. Nema það sem verra væri að ráðherrar telji að almenningi, sem borgar brúsann, komi þetta ekkert við.

Ég vil aðeins segja við þá sem enn þá kenna sig við Framsóknarflokkinn að þeir ættu nú að hugleiða hvort það sé góð leið til bata fyrir flokkinn að liggja í sjúkrarúmi Sjálfstæðisflokksins. Miklu nær væri fyrir Framsóknarflokkinn að horfast í augu við misjöfn verk fortíðar sinnar með dyggri aðstoð núverandi formanns flokksins, sem hefur verið helsti hugmyndafræðingur hans, en hann kynnti hér að hann væri fullur aðdáunar í garð fortíðar flokksins. Það væri hreinskilið og gott fyrir flokkinn ef fram færi endurmat og jafnvel rannsókn líkt og kommúnistar í Austur-Evrópu fóru fram á og gerðu þegar járntjaldið féll. Flokkurinn þarf að gera upp spillingarmál eins og sölu ríkiseigna þar sem eigur almennings enduðu ítrekað í höndum innsta kjarna flokksins. Einnig þyrfti að fara fram endurmat á afstöðu til kvótakerfisins sem er á góðri leið með að leggja hverja sjávarbyggðina á fætur annarri í rúst og það þarf að svara því hreinskilnislega hvort fráfarandi flokksforusta hafi hagnast persónulega á kerfinu á meðan það olli öllum almenningi í landinu skaða.

Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér af alefli fyrir því að vafasöm einkavæðing verði rannsökuð algjörlega ofan í kjölinn en mörgum spurningum þar er enn ósvarað eins og þeirri hvers vegna lægsta tilboði var tekið í Landsbanka Íslands. Sömuleiðis ætti að vera íhugunarefni fyrir Framsóknarflokkinn, sem einhvern tímann kenndi sig við félags- og samvinnuhugsjón, að á valdatíma flokksins nú síðustu árin hefur hann slegið öll fyrri met í því að auka misskiptingu á Íslandi. Stefna Framsóknarflokksins hefur verið ósveigjanleg í því að seilast æ dýpra í vasa þeirra sem hafa lægstu launin og meðallaunin og aflétta skattbyrðinni af þeim sem hafa hæstu launin. Síðan hafa flokkarnir sameinast einlæglega í því að skipta þessum gæðum ójafnt út til landsmanna.

Ég vil beina orðum mínum til ungs fólks í landinu og segja við það: Ef þið viljið komast áfram á eigin verðleikum þá er vísasta leiðin að styðja Frjálslynda flokkinn.

Sjálfstæðisflokkurinn er að breytast í langdýrustu félagsmálastofnun landsmanna þar sem flokksgæðingum, vinum og jafnvel frændum er úthlutað verkefnum og störfum, jafnvel í Hæstarétti.

Það sem vekur mér ákveðinn ugg nú er að forsætisráðherra virðist ekki gera sér nokkra grein fyrir þeim blikum sem eru á lofti í efnahagslífinu, hann virðist álíka grandalaus þar og gagnvart varnarmálunum. Þau komu honum algjörlega í opna skjöldu. Og ekki virðast stjórnvöld hafa nokkrar áhyggjur af því að þjóðarbúið sanki að sér skuldum og stríði við gríðarlegan viðskiptahalla. Heimilin og fyrirtækin hafa aldrei verið skuldugri. Forsætisráðherra víkur lítillega að þessum vanda og kallar þetta óróa en ég er viss um að þessi órói hvílir mjög þungt á skuldsettum heimilum landsmanna.

Við í Frjálslynda flokknum höfum áhyggjur af þessu og viljum að tekið verði á þessu og að menn hugsi fyrir þessu. Það er ekki hægt að bjóða skuldsettum heimilum upp á 23% vexti, verðtryggða fasta vexti sem eru þeir hæstu í landinu, og tala eins og að allt leiki í lyndi.

Ég sé að tíma mínum er lokið. Ég þakka kærlega fyrir og vonast til þess að forsætisráðherra horfist í augu við þann vanda sem við er að etja í þjóðlífinu en líti ekki stöðugt undan.