133. löggjafarþing — 2. fundur,  3. okt. 2006.

stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[21:34]
Hlusta

Halldór Blöndal (S):

Frú forseti. Góðir landsmenn. Það eru ávallt tíðindi þegar nýr forsætisráðherra flytur stefnuræðu. Stefnuræða forsætisráðherra bar tón trausts og bjartsýni og það var ástæða til. Rannveig Guðmundsdóttir sagði áðan að ríkisstjórnin hefði brugðist heimilunum í landinu. Staðreyndirnar segja að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi hækkað um 60% á 10 árum, verðbólga verði komin niður í 2,5% á miðju næsta ári, atvinnuleysi er nánast ekki neitt. Efnahagur ríkisins er sterkur. Eins og fram kom í ræðu forsætisráðherra gefur það svigrúm til að bæta hag aldraðra og öryrkja, lækka matarverð og skatta, styrkja heilbrigðisþjónustu og efla háskólasamfélagið og veita meira fé til vegamála en nokkru sinni fyrr.

Ég tók eftir því hversu ríka áherslu, frú forseti, formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, lagði á það að við Íslendingar myndum nú fara í hár saman út af því hvernig við vildum nýta okkar náttúruauðlindir og líkti því við hin hörðu átök sem urðu um varnarmálin á sínum tíma og í sama streng tók formaður Vinstri grænna, Steingrímur J. Sigfússon. Ég hygg að þau bæði hafi dregið taum utanríkisstefnu Sovétríkjanna á 9. áratugnum á þeim tíma sem Sovétblokkin setti í viku hverri upp eina eldflaug með þrem kjarnaoddum og beindi að löndum Vestur-Evrópu, á þeim tíma sem skipulögð var árás á Borgundarhólm. Þau skjöl fundust í Austur-Þýskalandi og var gert ráð fyrir að sprengja þar kjarnorkusprengju í því litla landi. (Gripið fram í.) Þetta er rétt.

Ég hygg að það sé kominn tími til að rifja upp hver var afstaða manna á hverjum tíma, hvaða peningar runnu að utan til íslenskra stjórnmálaflokka og hvar samgönguráðherra vinstri stjórnarinnar var á árunum 1988–1991 þegar samið var við varnarliðið um að leggja ljósleiðara um Ísland. Hvar skyldi hann hafa verið, Steingrímur J. Sigfússon, þegar það var gert? Þess vegna tek ég undir með honum. Ég vil fá öll spil á borðið.

Ég vil segja um náttúruvernd og náttúru landsins og fólkið að auðvitað viljum við Íslendingar, og höfum alla tíð viljað, vernda náttúru okkar. Við höfum viljað búa með náttúrunni, við höfum viljað nýta auðlindir hennar. Á sínum tíma var mikil andstaða og mikil barátta gegn Búrfellsvirkjun eins og við munum. Hún malar nú gull fyrir okkur. En hvernig var ástandið á Austurlandi þegar menn samþykktu hér og í borgarstjórn Reykjavíkur að fara í Kárahnjúkastíflu og það álver? Síðustu áratugina á undan hafði fækkað um 1.200 manns á Austurlandi. Það er fleira fólk en býr á Eskifirði, það er helmingi fleira fólk en nú býr á Reyðarfirði og var nema von að við hefðum áhyggjur stjórnmálamenn sem hugsuðum eins og Lúðvík Jósepsson að atvinna fyrir fólkið skipti máli. Hugsuðum eins og Smári Geirsson að atvinna fyrir fólk skipti máli. En sú Samfylking sem nú er til hugsar ekki um atvinnu fólksins, hún hugsar ekki um að búa til störf.

Samfylkingin er á báðum áttum.

Hvað segja vill hún veit ég ei

en Vinstri grænir segja nei.