133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[14:55]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason kom í ræðustól og sakaði stjórnarandstöðuna um að vera ekki samstiga í dag. Mér fannst það nokkuð skondið eftir að hafa hlýtt á ræðu hæstv. forsætisráðherra og síðan á ræðu hæstv. utanríkisráðherra Valgerðar Sverrisdóttur. Mér fannst ekki mikill samhljómur í þeim málflutningi. Þar var í annarri ræðunni talað í vestur og í hinni talað í austur. Í annarri ræðunni var talað um traust samband við Bandaríkin, varnarsamning sem hefði sama gildi og hann hefði alltaf haft en í hinni ræðunni talað um öryggissamfélag við Evrópu, nánara samstarf innan Evrópusambandsins, um hinar nýju ógnir sem að steðja en ekki verða leystar eða ekki verður mætt með hernaðarlegu samstarfi heldur með annars konar samstarfi ríkja.

Þá er stóra spurningin, frú forseti: Hvert liggur leið þessarar ríkisstjórnar, (Gripið fram í: Niður.) annað en þráðbeint út úr Stjórnarráðinu náttúrlega? Ja, hún liggur annars vegar til vesturs væntanlega, þó ekki jafngreiðlega og hingað til hefur verið, og hin leiðin liggur til austurs. Væntanlega munu menn reyna að tala svona í vetur þangað til þeir skilja að skiptum í vor. Ekki ætla ég að hafa áhyggjur af því.

Hins vegar er það svo að hér hefur opinberast algert ráðaleysi ríkisstjórnarinnar í þessum efnum og algert hugmyndaleysi manna sem hafa ekki spáð í þessi mál í 15 ár, manna sem halda enn að kaldastríðsretoríkin gangi, manna sem tala enn eins og nýbúið sé að skrifa undir varnarsamninginn 1951 og við höfum þá öll verið í Alþýðuflokknum, að áar mínir hafi þá vitað allt um varnaráætlanirnar. Ég leyfi mér að efast um að svo hafi verið því vinnubrögð kalda stríðsins tíðkast sem betur fer að mestum hluta ekki lengur í dag þótt enn sé reynt. Það voru vinnubrögð leyndarinnar, vinnubrögð útilokunarinnar, það voru þau pólitísku vinnubrögð að skipta öllu í svart og hvítt og annaðhvort varstu í réttu liði eða röngu liði. Þeir sem voru í röngu liði fengu engar upplýsingar og þannig er það enn í dag á stjórnarheimilinu.

Hvernig má það vera að í vestrænu lýðræðisríki séu tveir, kannski þrír einstaklingar, sem hafa einhverja vitneskju um varnaráætlun fyrir Ísland? Einhverja vitneskju, ég ætla ekki að segja að þeir hafi á henni þekkingu eða skilning en þeir gætu haft um hann einhverja vitneskju. Hvernig má það vera? Búum við við einhvers konar einræði eða upplýst einveldi, frú forseti? Þannig er það ekki. Í öðrum lýðræðisríkjum mundi slíkt aldrei líðast. Ég held reyndar, frú forseti, að mönnum mundi ekki detta það í hug að koma málum þannig fyrir að tveir til þrír einstaklingar hefðu upplýsingar sem stjórnarandstaðan, lýðræðislega kjörnir fulltrúar í utanríkismálanefnd sem undirgengist hafa trúnaðarskyldu nefndarinnar, fá ekki. Í þeirri afstöðu felst í raun svo mikil lítilsvirðing gagnvart kjörnum fulltrúum þjóðarinnar og gagnvart stjórnarandstöðu í lýðræðisríki að mann setur hljóðan, frú forseti.

Í raun er staða Íslands sem sjálfstæðs fullvalda ríkis í samfélagi þjóðanna nokkuð í lausu lofti vegna þess hvernig þessi mál hafa lagst. Menn eru nokkuð áttavilltir. Við höfum í raun ekki farið í gegnum þá umræðu sem þarf til að marka okkur stöðu og erindi á alþjóðlegum vettvangi. Sú vinna er öll eftir og sú vinna bíður væntanlega nýrrar ríkisstjórnar þegar þar að kemur. Í þá vinnu munum við fara fagnandi enda kemur Samfylkingin vel undirbúin til þess verks, mjög vel undirbúin.

Það sem þó liggur fyrir hér er að áfram er varnarsamningurinn þannig í fullu gildi að herinn er farinn en samt ekki farinn. Ég fæ ekki betur séð, frú forseti, en hann hafi fullt aðgengi að landinu, öllum landsvæðum og ekki bara varnarsvæðum, til að koma og fara að vild samkvæmt eigin skilgreiningum, skilgreiningum bandarískra hermálayfirvalda.