133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:11]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Árið 1989 féll Berlínarmúrinn og þá sá fyrir endann á kalda stríðinu. En hvað var kalda stríðið? Það var friður á spjótsoddum, stríðið var háð á mörgum vígstöðvum, það var ógnarjafnvægi, fælingarmáttur og átök bæði stjórnmálaleg og í menningarmálum. Dæmi um stjórnmálaleg átök mátti heyra hér í umræðum í gærkvöldi þegar hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon flutti kaldastríðsræðu um grein í Mogganum og mátti ekki á milli sjá hver hafði betur. Þetta voru átök af því tagi að skáld og listamenn voru settir út af sakramentinu ef þeir mökkuðu ekki rétt. En það voru vonir um betri tíð og tímabil breytinga og tímabilið síðan hefur verið tímabil staðbundinna átaka hingað og þangað. Því er nú verr að friður hefur ekki haldið, en það var ljóst að það mundu verða breytingar og að hin einstöku ríki mundu endurskoða varnaráætlanir sínar. Það er sérstakt fagnaðarefni að ekki er talin yfirvofandi hefðbundin hernaðarleg ógn hér á landi og það ber auðvitað að fagna því að landið er orðið herlaust og að þessu gamla deilumáli hefur verið vikið til hliðar sem slíku. Víglínan í því lá m.a. þvert yfir flokkinn minn þegar ég byrjaði að hafa afskipti af pólitík. (Gripið fram í.)

Það er ástæða til þess að byggja á varnarsamningnum við Bandaríkin og byggja upp samskipti á breyttum grunni eins og samningurinn sem ríkisstjórnin gerði gerir ráð fyrir. Ég tel það rétt. Ég tel það líka rétt að uppfylla skyldur okkar í NATO og það verða auðvitað breytingar og hafa orðið breytingar þar innan borðs, hreyfanlegar hersveitir hafa þar meira hlutverk og bandalagið hefur haft afskipti af málum utan þeirra ríkja sem eiga þar aðild. Aðildarríkjum hefur fjölgað og NATO hefur m.a. tekið upp óformlegt samstarf við Sovétríkin á ýmsum sviðum. Umhverfið breytist í þessu efni og aðalatriðið er að byggja upp traust í nýjum heimi að þessu leyti.

Það hefur verið rætt töluvert um þjóðaröryggi og inn í þessi mál hefur blandast umræða um nýjar ógnir, hryðjuverk, skipulagða glæpastarfsemi, eiturlyfjasölu og vændi. Stundum finnst mér við Íslendingar taka æðilétt á þessu máli. Ég held að fara þurfi fram opin, fordómalaus og hreinskiptin umræða um það hvernig best verður brugðist við þessum nýju ógnum. Viðfangsefnið er að mestu leyti borgaralegs eðlis þó að aðstoð frá hernaðarlegum öflum sé ekki útilokuð í þessu efni. Við þurfum að styrkja lögregluna, við þurfum að hafa samstarf á alþjóðavettvangi, Schengen-samningurinn er m.a. þáttur í því samstarfi. Við þurfum að hafa traust samstarf bæði í austur og vestur. Menn undrast yfir því að litið sé í austur og vestur. Hvar hafa menn verið? Þarf ekki að hafa samstarf í báðar áttir? Við þurfum að hafa traust samstarf við þær þjóðir sem við höfum haft mest samstarf við á undanförnum árum en ekki standa undrandi og áttavilltir eins og stjórnarandstaðan stendur í þessari umræðu.