133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:16]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hafa verið fluttar ágætar ræður. Ég leyfi mér þó að undanskilja eina ræðuna hvað það snertir, ræðu hv. þm. Hjálmars Árnasonar. Málflutningur hans var ekki heiðarlegur þegar hann reyndi að koma ábyrgð á mjög umdeildum samningi sem gerður var árið 1989 og lýtur að mengunarmálum á Suðurnesjum, á hersvæðinu þar, á herðar hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem þá sat í ríkisstjórn. Það hefur verið gerð grein fyrir því opinberlega að þessi samningur var aldrei borinn undir ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þáverandi formanns Framsóknarflokksins, sem þá sat við völd. Þetta veit hv. þm. Hjálmar Árnason.

Til umræðu eru varnir Íslands. Við ræðum með hvaða hætti öryggi Íslendinga verði best tryggt. Áherslur innan Alþingis hafa verið þrenns konar. Í fyrsta lagi áhersla ríkisstjórnarinnar og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokksins á samstarf við Bandaríkjamenn og NATO. Í öðru lagi að Íslendingar horfi í ríkara mæli en gert hefur verið til þessa til Evrópu en að NATO verði eftir sem áður sá grunnur sem við reisum varnir okkar á. Í þriðja lagi að við losum um tengslin bæði við Bandaríkin og NATO, að öryggi Íslands verði best borgið með því að við stöndum utan hernaðarbandalaga, með því að við stöndum utan NATO.

Hvort sem menn horfa til austurs eða vesturs, til Evrópu eða Bandaríkjanna þá er ekki að mínu mati eðlismunur þar á ef menn á annað borð ætla að reiða sig á NATO. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að herseta Bandaríkjamanna á Íslandi hafi fyrst og fremst verið til að efla hernaðarkerfi Bandaríkjamanna á heimsvísu, ekki til að tryggja öryggi Íslands. Stórveldin höfðu í reynd skipt heiminum á milli sín í áhrifasvæði. Bandaríkjamenn fóru sínu fram í sínum heimshluta og á sínu áhrifasvæði og Sovétríkin í sínum. Sovétríkin settu heilar þjóðir í austanverðri Evrópu undir járnhæl sem ekki losnaði um fyrr en í lok síðasta áratugar síðustu aldar með hruni Sovétríkjanna. Stórveldin tóku þá að breyta áherslum sínum og það gerði NATO líka. Þetta hefur komið til umræðu í þjóðfélaginu almennt og innan þingsins, t.d. ágætlega í ræðu hæstv. forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra sem hann flutti í byrjun apríl þegar fjallað var um utanríkismál á þinginu. Þá talaði hann um breytingar á kjarnastarfsemi NATO. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Munurinn frá fyrri tíð er sá að ógnir miðast ekki lengur við landamæri.“

Hann vísaði í hryðjuverkaógnina og staðnæmdist við atburðina í Washington og New York 11. september árið 2001. Hæstv. dómsmálaráðherra hefur einnig oft komið að þessum málum, nú síðast í blaðagrein í Morgunblaðinu sem hann birti 30. september. Þá fjallaði hann um þær breytingar sem orðið hefðu. Reyndar er alltaf svolítið skondið að hlusta á hæstv. dómsmálaráðherra tala um þessi mál. Hann er fastur í kalda stríðinu. Ræða hans áðan var samfelldur saknaðargrátur eftir kaldastríðstímanum og hann vill að við tökumst á við viðfangsefni samtímans og framtíðarinnar eftir víglínum liðinna áratuga en engu að síður hefur hann oft fjallað ágætlega um þær áherslubreytingar sem orðið hafa og gerði það eins og ég sagði áður í blaðagrein 30. september. Þar segir Björn Bjarnason, með leyfi forseta:

„Á tímum kalda stríðsins byggðist varnarstefna Vesturlanda á framvörnum. Herafla var skipað þannig að með skömmu viðbragði væri unnt að bregðast við árás og síðan mundu átök stigmagnast þar til gripið yrði til kjarnorkuvopna ef í nauðir ræki. Í samræmi við þessa stefnu var óvígur her í Vestur-Þýskalandi og lagt höfuðkapp á að snúast gegn sókn af Kólaskaga út á Norður-Atlantshaf eins norðarlega og fært þótti.

Nú byggist varnarstefna Norðurlanda á því að unnt sé að bregðast við hættu sem getur verið af margvíslegum toga og er heraflanum skipað samkvæmt því. Hann er sveigjanlegur og hreyfanlegur. Hið nýja samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um framkvæmd varnarsamningsins tekur mið af þessu nýja hættumati. Hluta hins hreyfanlega herafla er ætlað það sérstaka hlutverk að gæta öryggis Íslands og um það liggja fyrir áætlanir sem hafa verið kynntar íslenskum stjórnvöldum.“

Nú er komið í ljós að þessar áætlanir verða leynilegar og aðeins kynntar tveimur ráðherrum. Það eitt dæmir þennan samning algerlega úr leik, þessi leynd. Hitt vil ég gera að umræðuefni, þá breytingu sem hefur orðið á kjarnastarfsemi NATO eins og hæstv. forsætisráðherra hefur lýst. Allan 10. áratuginn hafa átt sér stað breytingar á kjarnastarfsemi NATO og þær voru stimplaðar endanlega með samkomulagi í Washington á hálfrar aldar afmæli NATO árið 1999 og síðan í kjölfarið á fundi Atlantshafsbandalagsins í Prag. Þær byggjast á þessum hreyfanleika sem hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason hefur lýst og að menn bregðist nú ekki við árás heldur ógn, hættuástandi. Og hætta sem skapast gagnvart einu aðildarríki á að gilda um öll ríkin, þar með okkur. Hverjum skyldi nú helst stafa hætta og ógn af hryðjuverkamönnum í heiminum? Skyldi það ekki vera það herveldi sem er hvað víðast með sínar klær og hagsmuni og fer með ójöfnuði um heiminn, það eru Bandaríkin. Þess vegna er vera okkar í NATO varasamari, hún er hættulegri en hún var fyrir nokkrum árum og áratugum. Ég reyni að færa rök fyrir því að sú áhersla sem allir flokkar á Alþingi að undanskilinni Vinstri hreyfingunni – grænu framboði leggja á veru okkar í Atlantshafsbandalaginu, NATO, er mjög misráðin (Gripið fram í: Hvað með ...?) og ég tel að við eigum í fullri alvöru að skoða þessi mál með alveg hreint borð. Við eigum ekki að láta Bandaríkjamenn soga okkur inn í nýjan heim Stasí-væðingar á öllum sviðum þjóðlífsins. Menn standa agndofa orðið á flugvöllum heimsins. Það er verið að taka af okkur tannkremstúpur, það verið að taka af okkur sjampó og vatnsflöskur vegna þess að menn hafa telja sig hafa fundið hópa sem vilja sprengja upp farþegaflugvélar. Það hafa verið sprengd upp kvikmyndahús og fjölmargir myrtir þar, leikhús, strætisvagnar, á ekki að leita líka þar? Hvar endar þetta?

Alþingi Íslendinga var sett fyrir fáeinum dögum. Það var farið með leitarhunda um bygginguna til að finna sprengjur og það var farið út í dómkirkju líka. Á hvaða braut erum við eiginlega komin? Þess vegna, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, sem spurði um afstöðu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, tel ég að við eigum núna að losa okkur úr viðjum vanahugsunar, losa okkur við kaldastríðshugsunina og við eigum ekki að gera George Bush að leiðtoga lífs okkar. Hann og hans menn ráða Atlantshafsbandalaginu. Öryggi Íslands er best borgið utan Atlantshafsbandalagsins og öryggi okkar verður best tryggt með því að fylgja réttlátum málstað.