133. löggjafarþing — 3. fundur,  4. okt. 2006.

varnarmál, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:26]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við Íslendingar erum vissulega að upplifa verulegar breytingar í varnar- og öryggismálum okkar og þess vegna er full ástæða til að taka sérstaka umræðu um þau mál nú í upphafi þings. Í umræðunni í gærkvöldi um stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra fór ég nokkrum orðum um þau merku tímamót þegar Ísland varð að nýju herlaust land og það er að mínu mati viðhorf mikils fjölda landsmanna, sennilega úr öllum stjórnmálaflokkum, að hér eigi ekki að vera her á friðartímum. Á þeim forsendum tel ég að margir hafi verið glaðir og sáttir við brottför hersins og ég er í þeim hópi.

Forsætisráðherra lýsti þeirri ákvörðun, þ.e. einhliða ákvörðun Bandaríkjamanna, þannig að hún hefði komið á óvart. Ég leyfi mér að halda því fram, hæstv. forsætisráðherra, að þetta sé ofmælt og þarf ekki í því sambandi að fara lengra en í ræðu núverandi forsætisráðherra þegar hann var utanríkisráðherra í nóvember 2005 þar sem hann vék að þeim viðhorfum sem uppi væru um breytingar á vörnum Íslands og sagði þá m.a., með leyfi forseta:

„Lýðræðisríki beggja vegna Atlantshafs hafa áfram sameiginlega grundvallarhagsmuni og því mikilvægt að þau nái að starfa saman gegn helstu ógnum samtímans. Því gegnir Atlantshafsbandalagið áfram lykilhlutverki. Sameiginlegar varnarskuldbindingar eru grundvöllur bandalagsins en breytt skipulag, fjölgun aðildarríkja og ný verkefni þess valda því að það hefur einstaka stöðu hvað varðar öryggismálasamstarf í heiminum. Það varðar því miklu að Ísland sé virkur þátttakandi í bandalaginu við hlið bandamanna og vinaþjóða.“

Síðar í ræðunni segir eitthvað á þá leið, hæstv. forseti, að viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framkvæmd varnarsamningsins hafi hafist í júlí árið 2005. Mér finnst því fullmikið gert úr því að það hafi komið ríkisstjórninni algerlega á óvart hvernig Bandaríkjamenn brugðust við fyrr á árinu með því að tilkynna einhliða að þeir færu. Ég tel að sú vitneskja hafi verið til staðar hjá stjórnvöldum þótt þau hafi kannski haldið henni leyndri fyrir íslensku þjóðinni. En í almennri umræðu kom fram að Bandaríkjamenn mundu fara héðan einhliða ef við sinntum ekki skyldum okkar við að reyna að leysa málin og koma samningum á annaðhvort við þá eða reyndar eins og við höfum oft talið í Frjálslynda flokknum að við hefðum átt að leita að eftir samstarfi við nágrannaríki okkar.

Það var auðvitað ríkisstjórnin sem tók þá ákvörðun að framlengja varnarsamstarfið við Bandaríkin núna nýverið og það er m.a. það sem við ræðum hér án þess að við sem nú erum í þingsal, aðrir en ráðherrar í ríkisstjórninni, vitum nákvæmlega í hverju varnarsamningurinn felst. Það hefur ekki verið upplýst og eins og ég skil málin verður það ekki upplýst nema fyrir örfáa menn sem sitja í ríkisstjórninni þannig að af sjálfu leiðir hvað sem hæstv. dómsmálaráðherra Björn Bjarnason segir að það er fyrst og fremst ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á þeim samningi sem gerður hefur verið. Stjórnarandstaðan hefur ekki nægar upplýsingar um hann og við vitum ekki nákvæmlega hvað í honum felst. Hins vegar held ég, hæstv. forseti, að við verðum að gera ráð fyrir því að samningurinn sé þannig úr garði gerður að á honum megi byggja að hér komi til ákveðinna viðbragða þurfi á þeim að halda. Það er að segja að komi upp ákveðnar aðstæður sem gera annaðhvort þá kröfu að hingað þurfi að koma herafli eða einhver viðbrögð til þess að verjast vá, þá hlýtur slíkt að vera í samkomulaginu þótt sá sem hér stendur hafi ekki hugmynd um hvernig það hafi verið útfært þar og við munum þar af leiðandi ekki bera ábyrgð á samningnum, hæstv. forseti. Við þingmenn hljótum hins vegar að ganga út frá því að samningurinn sé þannig úr garði gerður að honum sé ætlað að tryggja öryggi okkar ef vá ber að dyrum og einhverjar hættur steðja að. Í framhaldi af því mun samábyrgð NATO-ríkja vera í fullu gildi um það að veita þeim ríkjum stuðning sem verða fyrir árás annarra ríkja og í því gildi áfram þannig fyrirkomulag og viðhorf milli ríkjanna. En að öðru leyti vitum við ekki hvað í samningnum felst.

Hér hefur mikið verið rætt um viðskilnaðinn á Keflavíkurflugvelli og yfirtöku okkar þar á eignum og skuldbindingar varðandi mengun. Ég tel að okkur hafi verið það algerlega skylt og er algerlega sammála ríkisstjórninni um að við urðum auðvitað að yfirtaka eignir á Keflavíkurflugvelli, sérstaklega það er sneri að flugi og flugöryggi og koma í veg fyrir að á því yrði nokkur brestur eða tafir að hér væri haldið uppi eðlilegum og sjálfsögðum samgöngum á meginflugvelli landsins með fullkomnu öryggi. Það geta ekki verið miklar deilur um það. Við getum deilt um þær eignir sem þarna eru og mengunarþáttinn — og þar er um að ræða ábyrgð sem við tökum á okkur sem við vitum ef til vill ekki hver er — en ég lít samt svo á, hæstv. forseti, að þar séum við vissulega að taka áhættu en ef ég man það rétt úr því sem okkur var kynnt varðandi þessi mál þá var það þannig orðað að ef upp koma önnur mengunartilvik eða meiri en kortlögð hafa verið bæði af Bandaríkjamönnum sjálfum og eftirlitsstofnunum Íslendinga á Suðurnesjum, heilbrigðiseftirlitinu, þá munu Bandaríkjamenn þurfa að taka ábyrgð á því með fjárhagslegum skuldbindingum sínum.

Hæstv. forseti. Það er mjög margt fleira sem þarf að víkja að varðandi öryggismálum okkar Íslendinga og maður kemst ekki yfir það í svo stuttri ræðu sem hér er boðið upp á en ég tel að við eigum að auka samstarf okkar við Norðmenn, Dani, Grænlendinga og Færeyinga, jafnvel Skota og Íra um siglingar og siglingaöryggi í Norðurhöfunum. Ég sat í sumar ákaflega fróðlega ráðstefnu norður á Akureyri um öryggi siglinga í Norðurhöfum og mikla flutninga á olíu frá m.a. Múrmansksvæðinu á komandi árum. Þar var upplýst að mjög líklegt væri að um 500 fulllestuð skip mundu sigla hér um lögsöguna innan 10 ára, af stærðinni 100–300 þúsund tonn. Ég spyr, hæstv. forsætisráðherra: Hvaða viðbrögð ætlum við að hafa til þess að takast á við yfirvofandi mengunarslys af skipum sem eru af þeirri stærð og með þann þunga um borð sem fylgir gas- og olíuflutningum í svo stórum skipum? Það er ekkert skip hér á landi sem ræður við að forða slíku skipi frá strönd landsins. Öflugasta skipið sem við höfum séð við aðstæður við Ísland var norskur dráttarbátur sem dró skip af strandstað við suðurströndina. Það er eitthvert slíkt tæki sem við þyrftum að hafa hér ef við ætlum yfirleitt að hreyfa slíkum skipum. Ég tel að ekki sé seinna vænna fyrir okkur að fara að hugsa fyrir því hvernig ætlum við að bregðast við þannig vá. Þessar siglingar munu eiga sér stað og þeim mun eingöngu fjölga og við getum ekki látið taka okkur í bólinu með það að sitja hér uppi með 300 þúsund tonna skip fullt af olíu t.d. við norðurströnd landsins á vetrarmánuðum í vitlausri tíð og hafa ekki undirbúið nein viðbrögð við því hvar það lendir. Það væri geysilegt slys ef slíkt gerðist og það er ekki minni ábyrgð að takast á við þá framtíð en þau varnarmál og öryggismál sem við höfum verið að ræða í dag.