133. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2006.

réttur nefndar til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.

27. mál
[18:04]
Hlusta

Flm. (Sólveig Pétursdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Hinn 3. júní sl. var samþykkt þingsályktun þar sem ríkisstjórninni var falið að skipa nefnd til þess að annast skoðun gagna sem snerta öryggismál Íslands, innra og ytra öryggi, á árunum 1945–1991 í vörslu opinberra aðila og ákveða frjálsan aðgang fræðimanna að þeim. Með þeirri þingsályktun var sú pólitíska stefna mörkuð að þær upplýsingar skuli gerðar fræðimönnum aðgengilegar og sérstakri nefnd síðan falið að gera tillögu um hvernig staðið skuli að því, en nefndin var skipuð þann 22. júní 2006.

Áður en nefndin getur skilað tillögum sínum um tilhögun á aðgangi fræðimanna að gögnunum þarf hún að kanna hvaða stjórnvöld hafa slík gögn í vörslu sinni og gera könnun á þeim.

Þar sem ætla verður að öll gögn og upplýsingar um öryggismál íslenska ríkisins á árunum 1945–1991 séu ekki aðgengileg almenningi á grundvelli upplýsingalaga, nr. 50/1996, aðallega vegna einkalífsverndar þeirra sem sættu eftirliti eða rannsókn á þessu tímabili, er nauðsynlegt að mæla í lögum fyrir um aðgangsrétt nefndarmanna að þessum gögnum og leggja um leið þagnarskyldu á þá. Frumvarp þetta er flutt til þess að lögfesta slíka aðgangsheimild nefndarmanna. Þá er jafnframt lagt til að lögfest verði að öllum opinberum starfsmönnum, bæði núverandi og fyrrverandi, verði skylt að svara fyrirspurnum nefndarinnar um verklag við öflun, skráningu og varðveislu upplýsinga um öryggismál Íslands á árunum 1945–1991 þrátt fyrir ákvæði laga um þagnarskyldu. Ákvæðið er nefndinni nauðsynlegt svo að hún geti kannað með hvaða hætti gögn um öryggismál Íslands urðu til og hvernig varðveislu þeirra var hagað, hvar þau er að finna og hvaða gögnum hefur verið eytt.

Þá er í frumvarpinu mælt svo fyrir að upplýsingalög, nr. 50/1996, gildi ekki um störf nefndarinnar. Væri slíkt ákvæði ekki sett mundu öll gögn, sem nefndin aflaði sér frá dómstólum í málum sem fjallað var um á árunum 1945–1991, færast undir gildissvið upplýsingalaga þar sem þau væru þá komin í vörslu stjórnvalds og orðin þáttur í ákveðinni stjórnsýslu nefndarinnar.

Rétt þykir að taka upp í lögin það ákvæði sem var í síðari málsgrein þingsályktunarinnar frá 3. júní 2006 um að nefndin hafi á starfstíma sínum samráð við forseta Alþingis og formenn þingflokka um framvindu verksins. Slíkt samráð er afar mikilvægt til að tryggja áfram þá samstöðu um málið sem náðist við samþykkt ályktunarinnar sl. vor.

Við undirbúning frumvarps þessa hef ég átt gott samstarf við formenn þingflokkanna sem standa ásamt mér að flutningi málsins. Við höfum átt ágæta fundi um málið og fengum á fund okkar formann nefndarinnar, Pál Hreinsson prófessor. Formenn þingflokkanna hafa síðan rætt efni frumvarpsins við sína þingflokka.

Ég geri ekki tillögu um að málið fari til nefndar enda er það einfalt að efni til, heldur verði stefnt að því að afgreiða það sem fyrst þannig að nefndin nái því markmiði að ljúka störfum fyrir áramót.