133. löggjafarþing — 4. fundur,  4. okt. 2006.

réttur nefndar til aðgangs að opinberum gögnum um öryggismál.

27. mál
[18:07]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég stend að þessari tillögu með hæstv. forseta og öðrum formönnum þingflokka. Það er alveg rétt hjá hæstv. forseta sem talaði fyrir þessu máli hér áðan að það er nauðsynlegt að hraða málinu og þess vegna styðjum við þetta. Ég tek undir með henni að það þarf ekki að mínum dómi og okkar sem þetta flytjum að vísa málinu til nefndar. Það skiptir máli að þær heimildir sem hér er lagt til að umrædd nefnd fái séu veittar hið allra fyrsta.

Frú forseti. Til nefndarinnar sem hér um ræðir var stofnað sökum grafalvarlegra þátta sem fram komu. Það liggur fyrir að það hafa verið framkvæmdar njósnir, eftirlit með einstökum stjórnmálamönnum í fortíðinni og það er nauðsynlegt að grafast fyrir um það mál og fá allt sem því tengist upp á yfirborðið. Þess vegna fagna ég þessari tillögu.

Sömuleiðis, frú forseti, er rétt að vekja eftirtekt á því að frá því að þessi þingsályktunartillaga var samþykkt sl. vor hafa komið fram nýjar og enn alvarlegri upplýsingar um þetta mál sem brýna okkur og herða enn frekar til þess að upplýsa það með öllum mögulegum aðferðum. Ég fagna þeirri samstöðu sem hér hefur náðst.

Við þingflokksformenn áttum fund með Páli Hreinssyni, formanni umræddrar nefndar.Vegna þess að skapast hafa opinberar umræður um þá ósk Kjartans Ólafsson ritstjóra að fá aðgang að gögnum sem hann varða tel ég rétt að það komi hér fram, og ég upplýsti um það á fundi með formönnum þingflokka og forseta að ég mundi nefna þetta í minni ræðu, að ég innti sérstaklega eftir því hvort samþykkt þessarar tillögu gæti með nokkrum hætti tálmað því að Kjartani verði veitt bón sín. Það kom afdráttarlaust fram að það er skoðun formanns umræddrar nefndar að svo er ekki og það er í krafti þess og trausti sem ég stend að þessu máli núna.

Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að hafa sem opnastan aðgang að þessu og þær reglur sem á að setja um þetta taki til þriggja þátta. Í fyrsta lagi frjáls aðgangs fræðimanna, í öðru lagi að það sé alveg skorinort á hreinu að þeir sem eru andlag rannsóknar hafi skilyrðislausan rétt til þess að skoða slík gögn og sömuleiðis um sem opnastan aðgang almennings. Ég treysti því að það sé leiðarhnoða þessarar nefndar og er nokkuð fullur trausts á formanni nefndarinnar eftir að hafa rætt við hann. Ég taldi nauðsynlegt, frú forseti, að þetta kæmi hér fram vegna þess að einn nefndarmanna, þjóðskjalavörður, hefur í opinberri umræðu vísað til þess að beðið sé eftir niðurstöðu þessarar nefndar til þess að hægt sé að verða við ósk Kjartans Ólafssonar. Svo er sem sagt ekki. Því fagna ég og legg til að þessu máli verði hraðað í gegnum þetta þing.