133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:13]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra segist ekki missa svefn þótt einhverjir hafi hagnast í viðskiptum. Hverjir hafa hagnast mest í viðskiptum á Íslandi á undanförnum árum? Það eru þeir sem hafa fengið kvóta á hendi og hagnast með kvótabraski. Það eru einnig þeir sem hafa fengið ríkisbankana færða á silfurfati í viðskiptum við ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem hafa hagnast á viðskiptum. En hæstv. forsætisráðherra missir ekki svefn yfir þessu. Hann missir ekki svefn yfir eigin gerðum og staðhæfir hér að allir tekjuhópar á Íslandi hafi það betra nú en fyrir tíu árum og vísar til þess að kaupmáttur hafi vaxið um 60%. Ég staðhæfi að það er erfiðara að vera fátækur á Íslandi í dag en það var fyrir 10–15 árum. Það er erfiðara að vera veikur og þurfa að leita sér lækninga og borga sjúklingaskatta og sjúklingagjöld. Það er erfiðara að afla húsnæðis nú en það var fyrir 10–15 árum. Það er erfiðara að vera tekjulítill á Íslandi nú eftir valdatíma Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks en það var áður. Þetta eru staðreyndir og ég hélt sannast sagna, hæstv. forseti, að menn deildu ekki um það að ójöfnuður hefði aukist á Íslandi. Hann hefur stóraukist og hann birtist í ýmsu formi. Mismunandi tekjum, annars vegar ofurlaunafólk og hins vegar lágtekjufólk. Ójöfnuðurinn birtist í mismunandi skattlagningu, atvinnutekjur eru skattlagðar mun hærra en tekjur af fjármagni, og hann birtist í mismunandi hag ríkis og sveitarfélaga. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir nú er hvernig við viljum bregðast við. Við höfum í stjórnarandstöðunni svarað því með fyrsta þingmáli sem við höfum lagt fram sameiginlega um að bæta kjör aldraðra og öryrkja, lágtekjufólksins. Auk þess höfum við lagt fram frumvarp um fjármagnstekjuskatt og leiðir til að bæta hag sveitarfélaganna.