133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:25]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Misskipting í launum og lífskjörum eykst ár frá ári. Þetta er hægt að mæla og það hefur verið mælt. Samanburður síðustu 10 ára staðfestir með Gini-stuðlinum svokallaða að bilið milli ríkra og fátækra hér á landi hefur aukist og stefnir, að öllu óbreyttu, í að það muni halda áfram að aukast. Það mun aukast á milli stétta og bilið mun einnig haldast óbreytt á milli kynja. Það má ekki gleyma því.

Ef þessi þróun heldur áfram verður það þjóðinni dýrkeypt á svo margan hátt. Það mun koma niður á framleiðslugetu þjóðarinnar þannig að til lengri tíma litið höfum við ekki sömu möguleika og við höfum í dag. Það mun einnig koma niður á lífsgildum þjóðarinnar og það mun skerða hagsæld okkar á svo margan hátt.

Hagur öryrkja, langveikra, margra aldraðra og fjölskyldna er í dag óásættanlegur. Það er staðreynd. En ofurlaun forstjóra og fjárfesta hafa fyrir löngu sprengt þjóðarsátt um lágmarkslaun. Hvernig er hægt að sætta sig við þau lágmarkslaun sem eru í dag þegar horft er til þeirra tekna og ofurlauna sem svo stór hluti þjóðarinnar fær stöðugt í sínar hendur?

Það þarf að tryggja lífeyri og lágmarkslaun sem næst framfærslukostnaði. Það verður að koma á þjóðarsátt um að launabilið á milli þeirra sem eru lægst launaðir og hæst launaðir verði ásættanlegt. Það þarf að tryggja öllum búsetu við hæfi. Það þarf að styrkja verkalýðsfélögin svo þau geti tryggt lágmarkslaun sem duga fyrir framfærslukostnaði. Það þarf að tryggja stöðu fjölskyldunnar.

Það er því nauðsynlegt að skipta hér um ríkisstjórn. Það er eina leiðin til að koma á (Forseti hringir.) þjóðarsátt og draga úr firringu í þjóðfélaginu.