133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:27]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Síðustu ár hefur verið gríðarlega mikil tekjuaukning í íslensku samfélagi. Eins og fram kom hjá hæstv. forsætisráðherra hér áðan hefur kaupmáttur aukist um 60% á síðastliðnum 10 árum. Hvað þýðir það? Það þýðir auðvitað að það hafa allir miklu meira fé til ráðstöfunar. Meira að segja hv. þm. Jóhann Ársælsson sem gengur hér fram hjá. Það er bara þannig.

Kaupmátturinn hefur aukist mest hjá þeim sem eru með lægstu launin og öryrkjum og ellilífeyrisþegum. (JóhS: Það er rangt.) Það er staðreynd, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir. (Gripið fram í.) Við skulum muna eftir því í þessu sambandi fyrir þremur árum juku ríkisstjórnarflokkarnir greiðslur til örorkuþega um 500 millj. Hvað gerðu hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar þá? Þeir gerðu ekki neitt. Þeir treystu sér ekki til að samþykkja þá hækkun og sögðu að hún væri á ábyrgð ríkisstjórnarinnar, sem var auðvitað hárrétt. (Gripið fram í.)

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn að gefa ræðumanni hljóð.)

Það voru greiðslurnar til öryrkja sem voru á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstaðan treysti sér ekki til að standa við. Það svíður auðvitað í dag að þurfa að sætta sig við þetta.

En hvað ætlar Samfylkingin að gera í þessum meinta ójöfnuði í íslensku samfélagi? Hverjar voru tillögur formanns Samfylkingarinnar hér áðan? Engar. Engar tillögur og engin ráð. Á að lækka laun þeirra sem eru með meðaltekjur eða há laun? Eða á að efna til stórkostlegra útláta úr ríkissjóði með því að hækka verulega allar greiðslur úr ríkissjóði svo munurinn minnki? Og það þurfa að vera verulegar greiðslur ef á að vera hægt að draga úr þeim mun.

Það sem blasir við er að ef Samfylkingin kemst til valda í íslensku þjóðfélagi (Forseti hringir.) þá munu skattar stórhækka, það verður hrina skattahækkana. Það skulu landsmenn muna.