133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

vaxandi ójöfnuður á Íslandi.

[10:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegur forseti. Ekki batnaði nú málflutningur Samfylkingarinnar í þessari umræðu. Það er ýmist talað um linnulausan hernað gegn jöfnuði eða að ráðist sé af fullri hörku gegn láglaunafólkinu í þjóðfélaginu. Þetta er málflutningurinn.

Hvað hefur verið að gerast í landinu undanfarin tíu ár? Tekjur hafa stóraukist. Efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur skilað gríðarlega miklum árangri þannig að að kaupmátturinn hefur stórvaxið. Eitt af því sem gert hefur verið var það að tekinn var upp fjármagnstekjuskattur. Fyrir tíu árum, 1996, skilaði hann engum tekjum í ríkissjóð vegna þess að hann var ekki til í núverandi mynd. Núna skilar hann vel á annan tug milljarða króna í ríkissjóð. Þetta er skatturinn sem Samfylkingin hefur sett mest hornin í og Vinstri hreyfingin – grænt framboð.

En það er alveg rétt að það er fullt af fólki sem borgar þennan skatt sem hefur miklar fjármagnstekjur. Þá verður maður að gera sér grein fyrir því: Vill maður fara í gamla farið og láta þetta fólk borga engan skatt eða vera ekki með neina starfsemi sem myndar þessar tekjur þar sem tekin er áhætta og ráðist í fjárfestingar? Viljum við það frekar eða viljum við frekar að ríkissjóður fái á annan tug milljarða af þessum skatti til að fjármagna velferðarkerfið og velferðarmálin þó að það þýði það að einhver ákveðinn hópur manna hagnist vel og efnist hérna í þjóðfélaginu? Þetta er náttúrlega það sem við stöndum frammi fyrir. Er okkur svo mikið í nöp við það að einhverjir efnist að við viljum ekki hafa þetta kerfi með þeim hætti sem nú er? Viljum við ekki að allir hóparnir í þjóðfélaginu geti bætt stöðu sína, geti bætt sín kjör? Auðvitað hljótum við að vilja það. Markmiðið og verkefnið er að gera það kleift að lyfta lágtekjuhópunum, að gera þeim kleift að fá sinn hlut í kaupmáttaraukningunni og bættum tekjum þjóðfélagsins, en jafnframt að gera öðrum kleift að sækja fram og setja ekki hornin í það þó að einhverjir efnist í leiðinni.