133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:04]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að byrja á að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með hans fyrsta fjárlagafrumvarp vegna þess að í fyrra mælti hann fyrir fjárlagafrumvarpi sem fyrrv. fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, hafði haft veg og vanda af. Þetta er því í raun fyrsta fjárlagafrumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra ber, ef við getum sagt sem svo, fulla ábyrgð á. Þess vegna er eðlilegt að frumvarpið sé skoðað í ljósi þeirra orða sem hæstv. ráðherra lét falla í sumar þegar árleg skýrsla Ríkisendurskoðunar kom fram um framkvæmd fjárlaga. Þá sagði hæstv. fjármálaráðherra að full ástæða væri til þess að bæta vinnubrögð víða í kerfinu og að áætlunargerðin ætti að vera betri.

Nú er það svo, frú forseti, að þrátt fyrir að ég hafi haft nokkra daga til að skoða fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2007 þá sé ég þess ekki stað að þar hafi nokkur breyting orðið á. Þess vegna hefði ég viljað fá hæstv. fjármálaráðherra til að aðstoða mig örlítið við þá leit. Hafi einhvers staðar verið tekið á í áætlunargerðinni þá væri æskilegt að hæstv. ráðherra benti mér á hvar það hefur átt sér stað. Ég vona að dæmin um aðhald séu ekki þau að lækka eigi útgjöld í nokkrum ráðuneytum um 1% og öðrum um 2% án þess að forgangsraða að því er virðist með nokkurri reglu. Það væri fróðlegt ef hæstv. ráðherra gæti hjálpað mér að finna hvað hefur batnað í áætlunargerðinni frá því að hann tók við fjármálaráðuneytinu.