133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:13]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst þetta með sérstakari andsvörum. Maður hefur séð ýmislegt hjá hv. þingmanni. Litaval og bókband er honum greinilega efst í huga en það er út af fyrir sig ekki mín sérgrein eða hlutir sem ég hef lagt mig sérstaklega eftir þótt hvort tveggja sé auðvitað mikilvægt.

Hann spyr hins vegar um stóriðjuna. Því er auðvitað til að svara að það er ekki gert ráð fyrir neinum viðbótarstóriðjuframkvæmdum umfram það sem þegar hefur verið ákveðið eða þegar er í gangi í þessu frumvarpi. Það er regla ráðuneytisins að taka ekki inn í frumvarpið eða forsendur frumvarpsins framkvæmdir sem ekki hafa verið teknar ákvarðanir um eða eru ekki þegar hafnar. Það hafa ekki verið teknar neinar slíkar ákvarðanir sem réttlætanlegt hefði verið að taka inn í forsendur þessa frumvarps. Meira er raunverulega ekki um það að segja. Það hafa heldur ekki verið teknar neinar ákvarðanir sem útiloka að svo geti orðið.

Meira get ég því miður ekki hjálpað hv. þingmanni í þessu efni. Ég get hins vegar alveg tekið undir það með honum að ef framkvæmdir í þessa veru mundu hefjast á því tímabili sem frumvarpið á að taka yfir þá hefðu þær að sjálfsögðu áhrif. En upplýsingar um það höfum við bara ekki eins og stendur.