133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta síðara andsvar hv. þingmanns lýsi því að hann býr í öðrum hugarheimi en flestir þeir aðilar sem taka þátt í viðskipta- og efnahagslífi hér á landi. Við búum við markaðskerfi. Það er ekki um skipulegt hagkerfi að ræða. Ákvarðanir um alla skapaða hluti, stóra og smáa, eru ekki teknar við skrifborð í ráðuneytinu. Þær eru teknar úti í atvinnulífinu, þær eru teknar á markaðnum. Það er einmitt þess vegna sem okkur hefur vegnað svo vel á undanförnum árum, að við höfum breytt hagkerfinu í þessa átt. Það hefur auðvitað sínar afleiðingar fyrir ýmsa hluti og við sjáum ekki alla hluti eins vel fyrir og við hefðum gert í skipulagskerfinu sem hv. þingmann dreymir enn um. Niðurstaðan er sú að við höfum það öll miklu betra eins og staðan er núna.

Ég get ekki sagt fyrir um óorðna hluti, hef aldrei þóst geta það. Ég verð að reiða mig á spár þeirra sem eru færastir til að segja til um þróun mála í hagkerfinu. Við höfum þá grundvallarreglu að taka ekki inn í spárnar hluti sem ekki eru endanlega ljósir og hv. þingmaður verður bara að búa við það alveg eins og ég að um þessa hluti vitum við ekki meira en fram kemur í frumvarpinu og forsendum þess.