133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:39]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta eru svona fastir liðir eins og venjulega þegar talsmaður Samfylkingarinnar kemur hér og ræðir um ríkisfjármál. Það er ástæða til, virðulegi forseti, að spyrja hann hvað það er þá sem hann telur að hafi farið svo mikið úrskeiðis í efnahagsmálum og hvað það var sem Samfylkingin vildi gert hafa til að koma í veg fyrir það. Hverjar voru tillögur hennar fyrir ári þegar við vorum að ræða um fjárlögin fyrir 2006? Það er rétt að rifja það upp ef hv. þingmaður vildi vera svo elskulegur. Þetta er orðin föst klisja hjá sumum stjórnmálamönnum að geta aldrei komið hingað upp í ræðustól án þess að byrja að tala um að hér sé svo óskapleg misskipting og vitnað í einhvern ákveðinn prófessor. Sko, prófessorar í hagfræði við Háskóla Íslands, það er þeirra vandamál ef þeir koma fram í blöðum og skrifa einhverja endemis bölvaða vitleysu um Gini-stuðul. Það er þeirra vandamál.

Það liggur nefnilega fyrir, hæstv. forseti, að hvergi nokkurs staðar í Evrópu hafa kjör fólks, jafnt láglaunafólks sem millitekjufólks, vaxið meira að raungildi en á Íslandi. Það hefur farið fram hjá hv. þingmanni að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir meiri millifærslum en nokkurn tíma áður, 10% að raungildi, sem er töluvert mikið frávik frá því sem langtímaáætlunin var, hún var 7,5. 10% að raungildi og í fjáraukalögunum sem er búið að birta núna líka er gert ráð fyrir gríðarlegum peningum einmitt inn í þá samninga til að auka greiðslur til þeirra sem menn hafa talið að stæðu kannski hallast að öllu, öryrkja og eldri borgara, auk þess sem gríðarlegum upphæðum er varið til viðbótar því sem áður var til barnafólks.

Svo kemur hv. þingmaður og segir: Hvergi meiri misskipting, aldrei meiri misskipting, þó að það liggi fyrir að þetta eru hrein ósannindi. Skýrslur Sameinuðu þjóðanna liggja fyrir. Þar hafa þeir metið lífsgildi í Evrópu. Niðurstaðan er sú að í hæsta flokki er Ísland.