133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:46]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni að sem betur fer eru lífskjör hér með því besta sem þekkist í heimi. Það er ekkert vafamál. Það tekur hins vegar ekki af okkur þá ábyrgð að við þurfum að auka jöfnuð í samfélaginu. Það er röng leið að okkar mati að vera að auka ójöfnuð. Það er þar sem skilur á milli okkar hv. þingmanns og mín.

Mælistikur geta verið margs konar og þar er alls konar meðaltalsreikningur. En það blasir við að því miður hefur ríkisstjórninni mistekist að auka jöfnuð í samfélaginu. Hún hefur verið að auka ójöfnuð.

Við getum farið yfir lítið dæmi sem er skattamálin. Þar hefur verið sýnt fram á þetta óyggjandi, meira að segja með svörum frá hæstv. fjármálaráðherra. Þannig hefur þetta verið. Skattbyrðin hefur minnkað hjá þeim sem meira hafa og aukist á hinum. Hvaða afleiðingar eru af því, hv. þingmaður? Það getur ekki orðið neitt annað en að auka ójöfnuð. Svo getum við deilt um það endalaust hversu mikinn jöfnuð (EOK: Þetta er rangt.) við viljum hafa. Hv. þingmaður mótmælir upplýsingum frá hæstv. fjármálaráðherra. Það er eins og ég sagði hér í fyrra andsvari mínu. Það skiptir engu máli hver segir hvað. Hv. þingmaður er með heimsmyndina algerlega hreina í sínum kolli og það mun enginn trufla það. En við komumst lítið áfram í umræðunni á meðan svo er.

Það eru staðreyndir sem ég hélt að hv. þingmaður áttaði sig á þó við skoðuðum bara hreinlega prósentutölurnar varðandi tekjuskattinn. Það hlýtur að koma betur út fyrir hátekjumanninn þegar prósentan er lækkuð en lágtekjumanninn. (Gripið fram í.) Það segir sig sjálft, nákvæmlega. Þetta snýst um það að stefna Sjálfstæðisflokksins er þessi. Hún hefur verið í framkvæmd með Framsóknarflokknum og stefnan er sú klárlega, hv. þingmaður, að auka ójöfnuð í samfélaginu. Því þurfum við að breyta. (EOK: Við vorum að taka af hátekjuskattinn ...)

(Forseti (RG): Þingmenn eru beðnir að gefa hljóð.)