133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:48]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nú að segja að mér brá við ræðu hv. þingmanns. Hv. þingmaður sem alla jafna er glaðsinna, hann sá bara svart. Þuldi upp lista yfir það sem hann taldi að hefði miður farið í lífskjörum landsmanna á undanförnum árum og sá hvergi til sólar.

Hann fór m.a. út í ýmsa skattatölfræði sem hann gat fundið upp meðan staðreyndin er sú að skattar sem hlutfall af landsframleiðslu munu lækka annað árið í röð. Útgjöldin munu hækka, annars vegar vegna aukinna framkvæmda og hins vegar vegna aukinna tilfærslna. Tilfærslurnar fara í að auka jöfnuðinn. Bæta hag þeirra sem verst standa. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að kaupmáttur á árinu muni aukast um tæp 4%. Ég vona að hv. þingmaður taki nú gleði sína aftur við þetta.

Það er hins vegar sjálfsagt að gera hagræðingarkröfu til reksturs ráðuneyta og stofnana eins og gert hefur verið. Það er sjálfsagt að fara yfir verkefnin og reyna að endurmeta hvað sé nauðsynlegt og hvað sé ónauðsynlegt, til að skapa svigrúm fyrir ný útgjöld eins og okkur tekst í þessu fjárlagafrumvarpi og eins og okkur tekst varðandi samneysluna og varðandi reksturinn. Þar með höfum við meira afgangs til að auka jöfnuðinn í tilfærslunum.

Varðandi framhaldsskólann er það nú bara þannig hjá hv. þingmanni að berin eru súr. Hér er um forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar að ræða og þess sjást merki í frumvarpinu.

Hann vitnar hins vegar í þingskjölin þegar hann er að tala um hver hafi verið efnahagsstefna Samfylkingarinnar á síðasta ári, fyrir ári. En það þýðir ekki að fara í þingskjölin til að finna út úr því. Það verður bara misvísandi því efnahagsstefnan var misvísandi á milli umræðna og ekki nokkur leið að finna út úr því hvað Samfylkingin vildi gera fyrir ári.