133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:50]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er aldeilis að hæstv. ráðherra hefur farið vitlausu megin fram úr í morgun. Ég kannast ekki við að ég hafi ekki séð neitt nema svart. Hann er kannski farinn að sofa í nýja kjördæminu og það er lengra á milli og hann ekki búinn að jafna sig þegar hann kemur í þingsal.

En ég benti vissulega á að ýmsir jákvæðir hlutir væru í frumvarpinu. Þó það nú væri. En það er líka rétt hjá hæstv. fjármálaráðherra að tilfærslurnar eru til að auka jöfnuð. Ég nefndi það sérstaklega að það hefðu komið aðilar að borði ríkisstjórnarinnar og teymt hana til að gera þá hluti. Þetta er ekki endilega það sem ríkisstjórnin hefur mestan áhuga á eins og sést með matarskattinn sem líka er jöfnunaraðgerð. Þar bólar ekkert á. Hæstv. ráðherra notaði ekki tímann hér í andsvari til að segja okkur hvar það mál væri statt.

Varðandi framhaldsskólana, hæstv. ráðherra, þá er það nú sérkennilegt ef þeir eru orðnir sérstakt forgangsmál hjá ríkisstjórninni. Það er undarlegt birtingarformið í þeim efnum. Það er undarlegt birtingarformið. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra finni einhvern skólamann í framhaldsskólum landsins sem hefur orðið var við að það forgangsmál væri í gangi. Ég vona að hæstv. ráðherra geti aðstoðað mig við að finna slíkan forsvarsmann í framhaldsskólum landsins. Það væru tíðindi fyrir mig að hitta slíkan skólamann sem hefði orðið var við að framhaldsskólar landsins væru sérstakt forgangsmál ríkisstjórnarinnar.

Ja, sérkennilegt er birtingarformið, segi ég aftur. Ég rakti það í ræðu minni hvernig væri komið fyrir þeim og hvernig væri ætlast til að þeir yrðu reknir á næsta ári. Það er augljóst mál að þar er stefnan að þrengja enn frekar að framhaldsskólunum. Það sem verst er, það er búið að eyðileggja líklega endanlega reiknilíkanið þannig að við höfum ekki lengur viðmið. Það er ekki hægt lengur að nota (Forseti hringir.) það til að átta sig á því hvernig best er að bæta starfið í þeim skólum.