133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[11:53]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var stutt andsvar hjá hæstv. ráðherra og skýr svör varðandi matarskattinn. Við ræðum hann síðar. Ég verð að verða við þeirri ósk hæstv. ráðherra að ræða hann síðar. Ég vona að ég fái tækifæri til þess sem allra fyrst.

En ég hafði ekki alveg lokið við að fara yfir fyrra andsvar hæstv. ráðherra, m.a. hvað það varðar að það hefði verið eitthvað óljóst hver stefna okkar hefði verið í fyrra. Þetta eru svona, getum við sagt, fastir liðir eins og venjulega, að tala um að einhverjir hlutir séu óljósir ef þeir eru ekki í fullu samræmi við vilja viðkomandi hv. þingmanna.

Það var algjörlega skýrt hjá okkur í fjárlagaumræðunni í fyrra, nákvæmlega eins og hún hefur verið mörg undanfarin ár. Sú sama stefna er enn einu sinni við lýði hjá okkur nú. Við teljum að það eigi að sýna aðhald í ríkisrekstrinum og við teljum að fyrsta skrefið til þess sé að gera alvörufjárlög. Gera fjárlög sem eru unnin þannig að þau séu tengd raunveruleikanum en ekki einhverri óskaútkomu hæstv. fjármálaráðherra.

Þannig á ekki að gera fjárlög og meðan svo er treystir ekki einu sinni hæstv. fjármálaráðherra sér til að fara eftir þeim. Það er auðvitað meginhneykslið. Fjárlög eiga nefnilega að vera eins og önnur lög sem á að fara eftir í hvívetna. En til að það sé hægt verður að minnsta kosti hæstv. fjármálaráðherra að hafa trú á að fjárlögin séu tengd raunveruleikanum.

Dæmi um það, og því segi ég þetta, er að fjöldi forstöðumanna hefur farið fram úr miðað við skilgreiningu fjárlaga. Miðað við allar vinnureglur hefði átt að vera búið að veita þeim mörgum að minnsta kosti áminningu, ef ekki brottvísun.

Hæstv. ráðherrar hafa ekki treyst sér til að gera þetta. Af hverju skyldi það vera? Jú, vegna þess að hæstv. ráðherrar vita að fjárlögin eru ekki rétt. Vegna þess að stofnanirnar hafa þá skyldu að veita ákveðna þjónustu sem hæstv. ráðherrar eru ekki tilbúnir til að segja að eigi ekki að gera. Þess vegna treysta þeir sér eðlilega ekki til þess að veita forstöðumönnunum áminningu eins og þó reglur segja til um. Meðan ástandið er svona erum við ekki að (Forseti hringir.) fjalla um alvörufjárlög.