133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:19]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nú sérkennilegt og skemmtilegt og ég held að það hljóti að vera að hv. þingmaður verði sendur um heimsbyggð alla til þess að boða þessa mögnuðu aðgerð til að ná tökum á verðbólgu, þ.e. að stoppa örlítið verk sem hefur síðan engin áhrif til seinkunar um eitt eða neitt þannig að þetta er svona hókus pókus aðferð og er býsna góð. En auðvitað komu aðrir aðilar þar að borði og hjálpuðu ríkisstjórninni við að ná niður verðbólgunni sem við erum því miður ekki búin að ná nægilega langt niður enn og það þarf auðvitað að halda því áfram. Það voru auðvitað aðilar vinnumarkaðarins sem komu þar að eins og áður.

Aðeins varðandi eignarskattinn sem hv. þingmaður tilkynnti hér að hefði verið tekinn af til þess að sinna láglaunuðum eldri borgurum fyrst og fremst. Þetta eru auðvitað þvílík öfugmæli að það er varla svaravert en það er þó rétt að vekja athygli hv. þingmanns á nokkrum tölum.

Um 24% af eignarskattslækkuninni rennur til 5% tekjuhæstu einstaklinganna. 75% af lækkun eignarskattsins lendir hjá tekjuhærri helmingi þjóðarinnar en einungis 1,2% af eignarskattslækkuninni, hv. þingmaður, rennur til 15% tekjulægstu einstaklinganna. Þetta eru staðreyndir málsins.