133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:26]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Trúlega megum við alltaf gera betur gagnvart íbúum landsbyggðarinnar. En hefur hv. þingmaður gleymt því að það var núverandi ríkisstjórn sem á sínum tíma stórlækkaði fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni, um tugi þúsunda króna? Var það aðgerð til þess falin að skerða kjör þeirra sem búa á landsbyggðinni? Nei, það var réttlætismál. (Gripið fram í.) Það var réttlætismál að lækka fasteignaskatta íbúa landsbyggðarinnar og það er mjög miður að hv. þm. Sigurjón Þórðarson þurfi að koma hér upp sí og æ og benda eingöngu á neikvæðar hliðar þess að búa á landsbyggðinni, dregur aldrei fram neitt jákvætt í þeirri umræðu. Er þá nema von að landsbyggðin heyi varnarbaráttu í slíkri umræðu? Við eigum líka að benda á kosti þess að búa á landsbyggðinni þó að við getum að sjálfsögðu alltaf gert betur og það er náttúrlega ætlun okkar í framtíðinni.