133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:30]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég skal fúslega viðurkenna að það eru ákveðnir gallar við fiskveiðistjórnarkerfið eins og öll önnur kerfi. Það má finna þá. Við höfum reynt að koma til móts við þau sjónarmið, m.a. með byggðakvóta. En ég minni á að þessa umræðu má samt ekki einfalda með þessum hætti.

Hér er um gríðarlega stór almenningsfyrirtæki að ræða sem eru í eigu lífeyrissjóða almennings og fleiri aðila sem eru mjög skuldug. Hvaða áhrif mundi það hafa ef rekstrargrundvelli þessara fyrirtækja yrði kippt undan þeim? Hvaða áhrif mundi það hafa á fjármálastofnanir í landinu? Ætli það mundi ekki þýða veruleg útlánatöp? Ætli lánastofnanirnar þyrftu ekki að ná í þá fjármuni með öðrum hætti, til að mynda með því að hækka vexti? Allt er þetta í einhverju samhengi. Ég bið þingmenn Frjálslynda flokksins að íhuga þessa hlið málanna. Hér er um mjög stórt hagsmunamál að ræða, ekki síst fyrir landsbyggðina.