133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[12:33]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal með glöðu geði viðurkenna það að ég stend að byggingu Kárahnjúkavirkjunar og öflugri atvinnuuppbyggingu á Austurlandi. Stefna Framsóknarflokksins hefur alltaf verið skýr í þeim efnum og við höfum talað vafningalaust um það mál.

Hins vegar finnst mér mikilvægt — þetta var nú heldur ódýr ræða, ódýrt andsvar hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni — að Vinstri grænir geri hreint fyrir sínum dyrum. Að tala fyrir þeim hugmyndum að þetta mannvirki eigi að standa autt eða án þess að Hálslón verði fyllt, tala þar af leiðandi fyrir því að álver verði ekki byggt á Reyðarfirði. Þetta mundi kosta 250 eða 300 milljarða kr., þessi hugmynd Vinstri grænna. Hvar ætlar hv. þingmaður að fá peninga í þetta verkefni, í verkefni sem mundi t.d. kosta framlög til Háskóla Íslands í 50 ár? Við höfum talað um að reyna að efla háskólamenntun hér á landi. Hvar ætlar hv. þingmaður að fá þessa 250–300 milljarða kr. (Forseti hringir.) í þetta helsta stefnumál VG?