133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[13:11]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna kom mjög skýrt fram gamla kommakratasamfélagið og draumurinn um að hegna mönnum fyrir að geta skilað meiru og vera betur borgaðir. Auðvitað borga þeir hærri skatta sem hafa hærri tekjur. Á að hegna mönnum fyrir það að vera hæfir til þess í alþjóðlegum samskiptum að menn vilji borga fyrir þá? Stjórnum við því? Þetta er frjálst samfélag. Segjum við bönkum eða öðrum hátæknifyrirtækjum hvað megi borga Pétri eða Páli hátt? Þeir ráða því sjálfir, þeir vita hvað þeir eru að gera. Sannarlega borga þeir meira sem hafa efni, getu og hæfileika til þess að vinna þannig. Það liggur alveg í augum uppi.

Það er líka alrangt að verið sé að mismuna mönnum með fjármagnstekjuskattinum. Menn skulu muna að það var samið um fjármagnstekjuskattinn í þessu samfélagi. Aðilar vinnumarkaðarins, allir stjórnmálaflokkar tóku þátt í því. Það var ákveðið að fjármagnstekjuskatturinn skyldi vera 10%. 10% hvað? 10% nafnvextir. Þannig að í verðbólgusamfélagi eins og við lendum í núna, 7–8% verðbólgu, þá geta fjármagnstekjurnar verið býsna háar, mjög háar. Þessu skulu menn vara sig mjög mikið á.

Það var stefnumál Sjálfstæðisflokksins til margra ára að taka af hátekjuskattinn sem á sínum tíma var settur á af vinstri stjórn vegna þess að með hátekjuskatti er verið að hegna því fólki sem var reiðubúið að leggja meira á sig. Og hvaða fólk var það? Það var yfirleitt það fólk sem var að byggja sér hús, það var fólk sem var að mennta sig, hafði menntað sig, það var fólk sem var að eiga börn. Það var reiðubúið til þess að vinna meira, það átti að hegna því með hátekjuskattinum. Sjálfstæðisflokkurinn leit alltaf á þetta sem mjög óréttlátan skatt, hafði það í baráttumálum sínum árum saman. Loksins hefur það tekist og nú um næstu áramót er hann farinn og kemur vonandi aldrei aftur.