133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:06]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður gerði að umræðuefni frestun á útboðum hjá ríkinu á síðastliðnu sumri. Það var frestun á öllum útboðum ríkisins þó að sjálfsögðu væri það þannig að mest væri það í vegaframkvæmdum vegna þess að vegir eru jú það sem ríkið er fyrst og fremst að fjárfesta í.

Það var mjög vel heppnuð aðgerð eins og allir vita. Það var aðgerð sem sneri að því að breyta væntingum samfélagsins. Vegna þess að við vorum að fara út úr miklu þensluskeiði var nauðsynlegt að koma þeim skilaboðum fram. Það er ekki óþekkt meðal hagfræðinga að væntingarnar geta verið jafnstórar og sterkar og geta haft jafnmikla þýðingu eins og einhver hlutlægur hlutur. Vel þekkt. Svo þetta er ekkert einsdæmi.

Hv. þingmaður gerði að umræðuefni að þetta hefði komið niður á Vestfjörðum. Ég vil fullyrða, herra forseti, að þetta er ekki rétt. Þetta er alrangt. Þessar aðgerðir koma á engan hátt niður á vegagerð á Vestfjörðum. Það tafði ekki vegagerð á Vestfjörðum um eina einustu mínútu. Það tafði ekki lagningu vega um einn einasta sentímetra. Þetta er bara hugarburður. Það kom hvergi nálægt því að hafa áhrif á vegagerðina enda gæti hv. þingmaður ekki bent á neinn einasta vegarspotta sem varð fyrir töfum af þessum sökum.