133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:08]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Frestun framkvæmda var eingöngu til að slá á væntingar, mátti skilja af orðum hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar. Hann heldur því fram í þessum ræðustól að frestun framkvæmdanna, útboða, hafi ekki haft nokkur áhrif á framkvæmdir, m.a. á Vestfjörðum.

Þetta held ég að sé alrangt, hæstv. forseti. Nærtækast væri að benda á þá vegalagningu sem fyrirhuguð var í Barðastrandarsýslu þar sem hefði verið hægt að halda áfram með veg út á Skálanes.

Því var líka lýst yfir af fulltrúum Vegagerðar á síðastliðnu vori að hægt hefði verið að bjóða út framkvæmdir í Djúpi innan hálfs mánaðar ef vel hefði verið að verki staðið. En eðlilega hættu menn náttúrlega að leggja mikla áherslu á þá vinnu þegar búið var að slá framkvæmdirnar af með frestun og vegagerðarmenn og þeir sem að unnu hafa sjálfsagt tekið sitt sex vikna sumarfrí. Þá geta menn auðvitað haldið því fram, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson gerði hér áðan, að slík frestun hafi engin áhrif. Það er náttúrlega uppsetning sem menn geta borið á borð fyrir sjálfa sig og aðra. Við vitum það vel sem vorum á fundi hér snemma í vor, eða þegar þessar ákvarðanir lágu fyrir, hvaða upplýsingar okkur voru gefnar. Ég geri ekki ráð fyrir að það þurfi neitt að fara að halla máli í þeim efnum.