133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:12]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og vænta mátti fór mikill tími hv. þm. Guðjóns Arnar Kristjánssonar í að ræða um vegamál í þessari fjárlagaumræðu. Ég vil aðeins af því tilefni geta þess að þegar ákvarðanir voru teknar um þær aðgerðir að fresta framkvæmdum gaf ég jafnframt í bréfi til Vegagerðarinnar fyrirmæli um að haldið yrði fullum fetum áfram við undirbúning framkvæmda sem eru á samgönguáætlun. Ég hef ekki aðrar fréttir um það en að svo hafi verið.

Engu að síður liggur það fyrir, sem kom fram raunar hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni, að vegna umfangsmeiri skipulagsvinnu, umfangsmeiri vinnu við umhverfismat og hönnun hefur í raun ekkert verk á Vestfjörðum frestast vegna þessara ákvarðana. Það bara liggur fyrir. Allt annað en það sem sagt hefur verið er rangt.

Í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar, sem væntanlega koma út í dag, er gerð grein fyrir því hvaða verk eru boðin út. Það eru aðeins boðin út þau verk sem eru tilbúin. Þar eru hinar réttu dagsetningar. Ég held því að ekki sé ástæða til þess að við þingmenn séum að karpa um það hér. Það er hægt að lesa um þetta í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar og fá síðan upplýsingar frá Vegagerðinni um þá framvindu alla.

En ég vil undirstrika að þessi aðgerð, að stöðva útboð, bar árangur. Hún sló á þenslu. Hún sló á væntingar. Aðilar á vinnumarkaði, sveitarfélög tóku mikið mark á þessari ákveðnu aðgerð, þessum skýru skilaboðum ríkisstjórnarinnar um að við ætlum að ná tökum á verðbólgunni. Það var markmiðið (Forseti hringir.) og það hefur náðst.