133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég geri nú ekki við því að sú ræða sem okkur þingmönnum var afhent í trúnaði á laugardagskvöld, ræða hæstv. forsætisráðherra, þar sem þau tíðindi birtust að búið væri að slá þessa frestun af, að hún hafi legið fyrir hjá Vegagerðinni til að birtast í Framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar. Þess vegna er nú varla við því að búast að Vegagerðin hafi getað gefið út fréttabréf um þau fyrirmæli. Þau voru alla vega afhent okkur í trúnaði.

Ef það er skoðun hæstv. samgönguráðherra að þessi 90 daga frestun, m.a. framkvæmda á svæðum þar sem engin þensla var, hafi haft svo mikil áhrif að náðst hafi niður þenslan hér á landi hennar vegna — er ég þá að gera að umræðuefni þær framkvæmdir sem menn bundu vonir við, bæði á Vestfjörðum og á norðausturhorninu — þá finnst mér að upp sé komin sú staða að ríkisstjórnin geti í raun og veru farið að flytja út nýja þekkingu. Nýja þekkingu um það hvernig á að slá niður verðbólgu og verðbólguvæntingar með einhverri 90 daga áætlun sem ég hef nú kallað Haarde-áætlunina.

Ég hef ekki heyrt þessa framsetningu áður og það verður fróðlegt, hæstv. forseti, þegar hagfræðingarnir fara að skoða þetta fyrirbæri sem hér hefur skilað svona markverðum árangri að mati ríkisstjórnarinnar og kynna það. Það verður fróðlegt þegar menn fara að útskýra hvernig þessi einstaka aðgerð hafði þau áhrif sem ráðherrarnir hafa verið að halda fram. Ég er ekki tilbúinn að leggja trúnað á það.