133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:19]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var sagt úr ræðustóli rétt áðan að stjórnarandstaðan hefði brugðist hart við. Nú get ég ekki tekið að mér, hæstv. forseti, að svara fyrir alla stjórnarandstöðuna varðandi viðbrögðin í vor. Ég get þar af leiðandi ekki borið um það nákvæmlega hvernig stjórnarandstaðan í heild brást við. Ég veit hvernig við í Frjálslynda flokknum brugðumst við. Við töldum að það væri óráð að fara í þessa frestun framkvæmda á landsvæðum þar sem þörfin væri hvað mest fyrir að halda áfram vegaframkvæmdum, þar sem lægi á að komast upp úr drullunni, þar sem lægi á að gera vegina akfæra, ekki bara yfir hásumartímann heldur einnig vor og haust — sem þeir eru iðulega ekki.

Við í Frjálslynda flokknum töldum að það hefði átt að bregðast við með því að beina þessum aðgerðum sérstaklega að þeim svæðum þar sem þenslan var og bentum á það. Það er því rangt, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, að við í Frjálslynda flokknum höfum lagst alfarið gegn öllum aðgerðum í þessa veru. Það er rangt. Við bentum hins vegar á að það væri ekki rétt að snúa virku aðgerðunum beint að svæðum þar sem engin þensla er mælanleg — um það vitna ályktanir íbúasamtaka, bæjarstjórna og bæjarstjóra, landshlutasamtaka, fólks úr öllum stjórnmálaflokkum, hv. þingmenn, fólks úr öllum stjórnmálaflokkum. Það vöruðu allir við því hvað þetta þýddi við ákveðnar aðstæður.