133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:21]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ljóst miðað við viðbrögð hv. þm. Guðjóns Arnars Kristjánssonar að ég á ekki von á því að stjórnarandstaðan muni standa sameiginlega að tillögugerð fyrir fjárlög fyrir árið 2007. Ég hefði nú haldið að það væri eitt af meginhlutverkum nýrrar samhentrar stjórnarandstöðu að standa sameiginlega að slíkum málum. Það var mjög erfitt að hafa tök á því að fylgjast með umræðunni í fyrra til að mynda þegar stjórnarandstaðan kom með tillögur sem vísuðu út og suður hvað fjárlagagerðina varðar. Ég vil benda á það í þessari umræðu — af því að það er greinilega markmið stjórnarandstöðunnar að halda því fram að hér hafi mikil hægri stjórn verið að störfum síðustu ár, sem hafi vegið að velferðarkerfinu — að staðreyndin er sú að við erum að verja hlutfallslega meiru af þjóðartekjum í samneyslu en í einkaneyslu heldur en árið 1995. Ef eitthvað er þá höfum við farið til vinstri í þeim málaflokkum.