133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:53]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég heyrði að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson fjallaði um eftirlitshlutverk fjárlaganefndar og var greinilega ekki kátur með að ég hefði nefnt að því miður starfaði meiri hluti fjárlaganefndar oft eins og stimpill gagnvart verkum ríkisstjórnarinnar. Gleymdi þar af leiðandi eftirlitshlutverki sínu og því mikilvæga hlutverki að kanna hluti til þrautar varðandi það hvort þeir væru réttir eða rangir.

Því miður, frú forseti, þá verð ég að endurtaka þetta. Það hefur allt of oft gerst í meðförum fjárlagafrumvarps í fjárlaganefnd að meiri hlutinn hafi virkað eins og stimpill. Hvers vegna veit ég ekki. En væntanlega vegna þess að það eru tekin fyrir mál í þingflokkum sem menn verða síðan að hlíta fyrirmælum um í nefndum.

Það hefur á stundum komið fyrir að við í minni hlutanum höfum talið að meiri hlutinn væri sammála okkur um ákveðna hluti sem þyrfti að breyta og bæta. En fyrirmæli, eins og við upplifum þau, hafa komið frá ríkisstjórn um annað og þá hefur meiri hlutinn virkað eins og stimpill í okkar augum.

Nú getur vel verið að upplifun okkar sé ekki sú sama og upplifun þeirra sem í meiri hlutanum sitja. Þeir hafa þá auðvitað fullan rétt á því að reyna að skýra það fyrir okkur að þetta sé með einhverjum öðrum hætti.

Ég get hins vegar fullyrt það við hv. þm. Einar Odd Kristjánsson að ég lít mjög alvarlegum augum, líkt og hv. þingmaður gerir einnig, á eftirlitshlutverk fjárlaganefndar. Mér finnst ekki síður mikilvægt að fjárlaganefndin vandi til verka þegar við erum að ganga frá fjárlögum. Sú vinna er ekki síður mikilvæg en að fylgjast með því að eftir fjárlögunum sé farið.