133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[14:55]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í öllum meginatriðum er ég sammála hv. þingmanni. Það ríður á á hverjum tíma að þingið sem heild geri sér grein fyrir skyldum sínum eftir megni. Þess vegna hóf ég ræðu mína hér áðan með því að vitna í tvo einhverja virtustu fræðimenn sem við eigum á vegum stjórnsýslu einmitt um þetta. Þó menn séu í liði, stjórnarþingmenn séu í liði með ríkisstjórninni og stjórnarandstaðan sé bara á móti ríkisstjórninni, þá gildir það samt á hverjum tíma að menn verði að átta sig á að samkvæmt lögum og reglum skulu menn vinna.

Það eru fjárreiðulögin. Það var mjög mikil framför þegar fjárreiðulögin síðustu voru sett. Þannig að við séum með þetta alveg á hreinu. Við höfum oft komið inn á ýmsa hluti varðandi þetta í starfi okkar í fjárlaganefnd á undanförnum árum. Hluti um það hvernig við gerum þetta og okkur hefur verið starsýnt á suma hluti. Við höfum m.a. annars verið sammála um það, bæði stjórn og stjórnarandstaða, að það þurfi að skoða ákaflega vel á komandi árum hvernig menn eru farnir að nota t.d. 6. greinar heimildina.

Ég á eftir að halda hér aðra ræðu og af ástæðum sem liggja nú fyrir fór ég ekki efnislega ofan í þetta frumvarp í fyrstu ræðu minni. Ég mun koma að nokkrum efnisþáttum varðandi framkvæmd þessa hlutar hér seinna í dag vegna þess að það er mjög nauðsynlegt að skerpa skilning manna á því hvernig ber að gera þetta og minna á hvernig fyrirmælin eru nákvæmlega í fjárreiðulögunum.