133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:19]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get út af fyrir sig tekið undir með honum um verðtrygginguna. En það tjóar ekki fyrir varaformann fjárlaganefndar að standa í ræðustólnum og benda á einhverja hluti úti í bæ eins og verðtryggingarkerfið, hágengið eða aðra slíka hluti. Það sem hér hefur farið úr skorðum er einfaldlega stjórn efnahagsmála. Við vitum það, hv. þingmaður og ég, að allar greiningardeildir og alþjóðlegir aðilar höfðu um það varnaðarorð, einnig Seðlabanki Íslands, að það sem hér vantaði á í hagstjórnina væri ekki síst hvernig haldið væri á ríkisfjármálunum. Margir töldu að Seðlabankinn sæti einn undir árum. Ástæðan fyrir því er auðvitað sú að stjórnarliðið hefur ekki séð það sem sérstakt vandamál að hér geisi verðbólga og hefur því ekki haft þann dug og þann tögg sem hefur þurft til að taka á sjálfvirkum útgjaldavexti ríkissjóðs sem hefur þanist á síðustu tíu árum sem aldrei fyrr og heldur hellt olíu á eld þenslunnar en hitt, sem vert væri, að slá á hana.

Þetta er full ástæða til að gagnrýna og í miðjum sjálfhælniræðum stjórnarliða að benda þeim vinsamlegast á að í öllum ríkjunum í kringum okkur væru þær tölur sem menn sýna hér um verðbólgu og vexti og aðra slíka hluti (Forseti hringir.) áfellisdómur.