133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:21]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í öllum löndum í kringum okkur mundu stjórnvöld hrósa sér af þeim tölum sem hér eru um hagvöxt og þeim tölum sem hér eru um kaupmáttaraukningu.

Hv. þingmaður talar um að skuldir hækki í 7,2% verðbólgu. En eignir hækkuðu um 100% á tveimur árum. Hv. þingmaður talar um að vextir séu háir. En árlegar greiðslur afborgana og vaxta eru lægri en þær voru áður. Hv. þingmaður kvartar yfir því að skattheimtan sem hlutfall af landsframleiðslu sé mikil. En skattheimtan á næsta ári, samkvæmt þessu fjárlagafrumvarpi, verður minni en hún er á þessu ári. Hún verður minni en hún var á síðasta ári og verður minni en hún var á þarsíðasta ári. Finnst hv. þingmanni það ekki skipta neinu máli, er ekki vert að nefna það fyrst hann á annað borð er að fara yfir þennan skáldskap sem hann eignar mér, að sjálfsögðu réttilega?

Ef hv. þingmaður hefur svo miklar áhyggjur af því hvað skattheimtan er mikil, hvers vegna vill hann þá hætta við þær tekjuskattslækkanir, sem ríkisstjórnin hefur ákvarðað og koma fram í þessu frumvarpi, og færa þær yfir í aðra skattalækkun til að lækka matvælaverð? Þær skattalækkanir sem við í ríkisstjórninni fyrirhugum, að lækka matvælaverð, munu koma til viðbótar því sem er í þessu frumvarpi. En hv. þingmaður vill bara færa á milli. Raunveruleikinn er því sá að skattheimtan, yrði ef farið væri að tillögum hans og hans flokks, yrði meiri og sennilega miklu meiri en það sem er lagt til í þessu frumvarpi.