133. löggjafarþing — 7. fundur,  5. okt. 2006.

fjárlög 2007.

1. mál
[15:25]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er óþarfi fyrir hv. þingmann að leggja mér orð í munn eða gera mér upp áhyggjur eða áhyggjuleysi. Ég er alveg einfær um að tjá þær skoðanir.

Það er alveg ótrúlegt sem hv. þingmaður er að segja. Ég þarf ekki einu sinni að leggja honum orð í munn. Hann er í þessum ræðum, þessum andsvörum, búinn að tala um ójöfnuðinn sem hann telur að sé í þjóðfélaginu. Hann er búinn að tala um hvað skattheimtan sé mikil, um tekjuaukninguna og alla þessa hluti.

En þversagnirnar eru augljósar. Skattheimtan eykst þegar tekjurnar aukast. Það er jöfnunin, það er sveiflujöfnunin, jöfnunin í skattkerfinu. En svo þegar tekjurnar minnka þá lækka skattarnir aftur. Hann talar um að ójöfnuðurinn sé að aukast en hann agnúast út í þau tæki sem auka jöfnuðinn. Þetta eru þversagnir, frú forseti, hjá hv. þingmanni og einkennilegt að hann skuli ekki sjá það sjálfur.